*

Hitt og þetta 21. júlí 2006

Hagnaður hjá TM Software

Undanfarið hefur streymt mikill fjöldi tilkynninga frá tölvufyrirtækinu TM Software. Ekki hafa þó borist neinar spurnir af afkomu félagsins en aðalfundur þess var haldinn fyrir skömmu. Urðu menn að skilja eftir ársskýrsluna við útgöngu. Samkvæmt bæjarrómnum hagnaðist félagið um 300 milljónir króna á síðasta ári en það fylgir sögunni að stærsti hlutinn af því sé söluhagnaður eftir söluna á Libra bankakerfinu sem KB banki lét TM selja samfara því að bankinn vildi að sænskt félag tæki við þeim rekstri.

Á árinu 2004 var hagnaður félagsins og ríflega það myndaður með því að eignfæra vöruþróun og bakfæra skatta. Þannig að það verður fróðlegt að skoða reikninginn núna þegar og ef félagið kýs að opinbera hann en TM Software er eitt af efnilegri upplýsingatæknifyrirtækjum landsins og til skamms tíma stóð til að skrá það í Kauphöll Íslands.