*

Ferðalög & útivist 24. september 2016

Hagstætt að ferðast til Kanada

Íslenska krónan hefur styrkst og kanadíski dollarinn veikst sem þýðir að mjög hagkvæmt er að fara í verslunarferð til Kanada.

Trausti Hafliðason

Framboð á flugi til Kanada hefur aukist mikið síðustu ár. Í dag fljúga íslensku flugfélögin Icelandair og Wow til fimm kanadískra borga. Bæði félögin fljúga til Montréal og Toronto auk þess flýgur Icelandair til Halifax, Edmonton og Vancouver. Stór hluti af viðskiptavinunum eru erlendir en síðustu misseri hafa Íslendingar í auknum mæli nýtt sér þessari ferðir.

Icelandair flýgur allt árið til Toronto og Edmonton en yfir sumartímann til hinna borganna þriggja. Wow flýgur allt árið til Toronto og Montréal.

Þorvarður Guðlaugsson, forstöðumaður hjá Icelandair, segir að Íslendingar séu í auknum mæli að fara til Kanada og aukninguna megi rekja til aukins framboðs á ferðum til landsins. Hann segir að flestir fari á vorin og haustin og þá í þessar hefðbundnu helgarferðir, þar sem fólk sé bæði að skemmta sér og versla.

Íslenska krónan hefur verið styrkjast mikið undanfarið og kanadíski dollarinn að veikjast. Í dag stendur Kanadadollarinn í 87 krónum. Til samanburðar stóð hann í tæpum 112 krónum vorið 2015. Gagnvart krónunni hefur Kanadollar því lækkað um ríflega 20% á rúmu ári.

„Kanadadollarinn er búinn að lækka mikið og ef Íslendingar eru að hugsa um að fara í helgarferð þá er Kanada mjög ákjósanlegur kostur — ekki síst ef fólk ætlar að versla," segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow. „Það er orðið hagstæðara að versla í Kanada en í Bandaríkjunum. Íslendingar eru oft að eltast við bæði bandarísk og evrópsk vörumerki og í Kanada er hægt að finna bæði, sem er svolítið merkilegt því í Bandaríkjunum er til dæmis oft erfitt að finna evrópsku merkin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.                   

Stikkorð: Icelandair  • Kanada  • Toronto  • Wow  • Edmonton  • Montréal  • Halifax  • Vancouver