*

Sport & peningar 28. ágúst 2011

Hagstýrir Arsenal

Hagfræðingurinn Arsene Wenger fer sínar eigin leiðir við stjórnun Arsenal.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal sem jafnframt er hagfræðingur að mennt, heldur áfram að selja sína bestu leikmenn fyrir himinháar upphæðir og kaupa síðan unga óþekkta leikmenn í staðinn. Titlarnir hafa ekki skilað sér, í það minnsta ekki síðan 2004, en fjárhagurinn er í góðum málum. „Þið kannski þekkið ekki þessa leikmenn en þetta eru miklir gæðaleikmenn,“ sagði Wenger við blaðamenn þegar spurt var hvort hann hefði nógu góða leikmenn til þess að leysa af hólmi spænska miðjumanninn Cesc Fabregas.

Veður gegn straumnum

Það verður seint sagt um Wenger að hann fari hefðbundnar leiðir þegar kemur að því að byggja upp fótboltalið í fremstu röð. Oftast nær þýðir ekkert annað en að eyða nógu miklum peningum í þekkta leikmenn. Upplýsingar um leikmannakaup fyrir tímabilið sem nú er nýhafið eru ekki síst til marks um það. Liverpool hefur eytt yfir 100 milljónum punda, jafnvirði um 18,5 milljörðum króna, í nýja leikmenn. Man. Utd. yfir 50 milljónum punda, Chelsea tæplega 100 milljónum punda, og svo mætti áfram lengi telja ef horft er út fyrir Bretland. Wenger hefur tekið ákvarðanir um að selja fyrirliðann sjálfan, Fabregas, til Barcelona, miðjumanninn Samir Nasri og vinstri bakvörðinn Gael Clichy til Manchester City. Samtals fær Arsenal tæplega 100 milljónir punda fyrir þessa þrjá leikmenn. Eftir að hafa lokið sölunni á þessum þremur leikmönnum – eða svo gott sem – seldi hann Fílabeinsstrendinginn Eboue til Galatasaray í Tyrklandi.

Hvað er hann að hugsa?

Spurningin sem aðdáendur Arsenal spyrja sig er; hvað er Wenger að hugsa og af hverju er hann selja bestu leikmenn liðsins, ár eftir ár? Svarið liggur ekki síst í því að Arsenal réðst í byggingu Emirates leikvangsins og eyddi í það um 390 milljónum punda. Til þess að félagið ráði við það þarf rekstur félagsins að vera sjálfbær. „Ég hef alltaf litið svo á að það sé mitt hlutverk að tryggja stöðugan rekstrargrundvöll félagsins,“ sagði Wenger á blaðamannafundinum er tilkynnt var um söluna á Fabregas.

Neville hrósar Wenger Gary Neville, hægri bakvörðurinn sem stóð vaktina allan sinn feril hjá Man. Utd. áður en hann hætti fyrir tveimur árum, sagði í pistli í Telegraph í síðustu viku að menn ættu að ekki að gagnrýna Wenger fyrir að vilja byggja upp „sjálfbært“ fótboltafélag. „Þetta er ekki auðvelt, en er skynsamlegt til langs tíma. Eftir 20 ár verður Arsenal ennþá stór klúbbur í fremstu röð, vegna þessa fordæmis sem Wenger hefur skapað,“ sagði Neville.

Stikkorð: arsenal  • Arsene Wenger  • sport og peningar