*

Bílar 25. apríl 2021

Hálendingurinn er mættur

Toyota Highlander var kynntur til leiks í janúar. Það er í fyrsta sinn sem þessi stóri sportjeppi kemur á markað í Evrópu.

Róbert Róbertsson

Toyota Highlander kom fyrst á markað árið 2000 og hefur notið mikilla vinsælda í Bandaríkjunum, Japan og Ástralíu en þetta er sem sagt frumraun hans í sölu í Evrópu. Þetta er fjórða kynslóð Highlander sem er stór og stæðilegur með mikið innanrými. Highlander er með kraftmikið yfirbragð enda stór og mikill en straumlínuðlöguð hönnunin er líka áberandi. Hann er eiginlega eins og stóri bróðir RAV4 sem hefur heppnast vel í nýjustu kynslóð. Það sama má segja um Highlander. Innanrýmið er þægilegt og vandað með handunnum klæðningum, mjúkum efnum og fjölbreyttu úrvali búnaðar og tengimöguleika. Bíllinn býður upp á mikið pláss og sniðugt geymslurými fyrir hluti og farangur.

Tvö niðurfellanleg sæti eru aftast í bílnum og er því pláss fyrir sjö manns í sportjeppanum. Frágangur er allur til fyrirmyndar. Það er allt á sínum stað og innan seilingar. Framsætin eru þægileg og bjóða upp hita en einnig loftræstingu. Hitinn nýtist nú yfirleitt talsvert betur en hitt er ákveðinn lúxus ef heitt er í veðri sem gerist nú kannski samt ekki oft hér á landi. En þetta er lúxusbúnaður. Bíllinn er með JBLhljóðkerfi með 11 hátölurum og 12,3“ margmiðlunarsnertiskjá með leiðsögukerfi og snjallsímatengingu í gegnum Apple CarPlay™ og Android Auto™. Það verður að minnast sérstaklega á JBL hljóðkerfið sem er sérlega gott og breytir þessum bíl í tónleikahöll þegar hækkað er í græjunum. 

248 hestafla Hybridvél

Toyota Highlander er í boði í þremur útfærslum, GX, VX og Luxury. Reynsluakstursbíllinn er VX útfærslan sem er vel búin staðalbúnaði á 20 tommu álfelgum, með LED aðal- og dagljósum, lituðum hliðarrúðum, upphituðu stýri, blindsvæðaskynjara og fjarlægðaskynjara að framan og aftan. Hann er svartur að lit og það er ekki laust við að þessi stóri og stæðilegi bíll gæti átt heima í bandarískri bíómynd með alríkislöggur innanborðs í spennandi bílasenu. Það er kannski ekkert skrítið að hann sé sérlega vinsæll í Bandaríkjunum. Highlander er með 2,5 lítra bensínvél og fjórðu kynslóð Hybrid-tækninnar sem skilar samanlagt 248 hestöflum. Vélin og Hybrid-kerfið skila nægu afli.

Aksturinn er skemmtilegur og þægilegur en einnig hljóðlátur. Bíllinn er mjög þéttur í alla staði og lítið sem ekkert hljóð berst inn á bílinn nema þá helst úr Hybrid-vélinni þegar gefið er inn. Hálendingurinn veitir góða öryggistilfinningu sama hvort ekið er greitt á malbiki eða farið af meiri varkárni á malarslóða eða hálfgerðar vegleysur. Aksturseiginleikarnir eru mýkri en ég bjóst við og mun mýkri en t.d. í Land Cruiser. Fjöðrunin er góð og þægindin almennt meiri en ég hafði búist við. Hámarkshraði sportjeppans er 180 km/ klst. Úr kyrrstöðu í hundraðið er 8,3 sekúndur. Eldsneytisnotkun er uppgefin frá 6,6 lítrum á hundraðið og CO2 losun er frá 149 g/km samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Tveggja tonna dráttargeta

Hægt er að velja um þrjár aksturstillingar, ECO, Normal og Sport sem er alltaf skemmtilegt val fyrir ökumann eftir því í hvernig stuði hann er í. Sumir velja ECO í sparaksturinn, aðrir Normal í þægindin en Sport stillingin er skemmtileg og líka í þessum bíl. Hún gerir aksturinn einfaldlega sportlegri. Hybrid Dynamic Force vélin vinnur með sjálfvirka fjórhjóladrifinu sem grípur inn í ef þörf er á og erfiðari aðstæður skapast t.d. í hálku eða snjó. Kerfið notar rafmótor að aftan sem vinnur sjálfstætt frá aðalrafmótornum til að beina auknu afli til afturhjólanna og passar upp á að framhjólin missi ekki grip. Kerfið vinnur líka gegn undirstýringu og hjálpar til að koma bílnum mjúklega í gegnum beygjur. Toyota Highlander er 4.950 mm langur með 658 lítra farangursrými.

Auðvelt er að fella niður tvær sætaraðir og mynda þannig 1.909 lítra farangursrými með sléttu gólfi. Sportjeppinn er fjórhjóladrifinn, með tveggja tonna dráttargetu og veghæð sem sæmir jeppa eða 20,3 sm. Highlander er búinn Toyota Safety Sense 2.5 sem er nýjasta útgáfa af öryggiskerfi Toyota. Þessi fjórða kynslóð Highlander er byggð á GA-K undirvagninum sem er einnig undir Camry og RAV4 en það er einmitt þess vegna sem hægt er að bjóða hann í Evrópu. Highlander kostar frá 10.690.000 kr. en reynsluakstursbíllinn í VX útfærslu kostar 11.690.000 kr. Til viðbótar í reynsluakstursbílnum er hið rómaða JBL hljóðkerfi sem kostar 300.000 kr. aukalega.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér