*

Matur og vín 28. júní 2013

Hamborgarinn ryður sér til rúms í Bretlandi

Hamborgarastöðum fer ört fjölgandi í Bretlandi. Hamborgarabúllan starfrækir útibú í London.

Hamborgaraæði er við það að brjótast út í Bretlandi, ef marka má umfjöllun The Economist um mikla fjölgun hamborgaraveitingahúsa í landinu. Hamborgarakeðjan Byron rekur nú 32 matsölustaði í Bretlandi en fyrsti staðurinn opnaði árið 2007. Staðir Gourmet Burger Kitchen eru orðnir 59 talsins og þá munu útibú tveggja bandarískra hamborgarakeðja opna í Bretlandi í næstu viku, frá keðjunum Shake Shack og Five Guys. Economist segir alla þessa staði nokkuð dýrari en McDonalds en þó ódýrari en aðra veitingastaði og fágaðri en McDonalds.

Í umfjöllun The Economist um „burgernomics“, sem kalla mætti „hamborgarahagfræði“ á hinu ylhýra, er bent á að hamborgaramáltíðin sé hentug fyrir marga í núverandi efnahagsástandi, auk þess sem veitingamenn líti til hagkvæmninnar í styttri og einfaldari matseðlum.

Nýverið birti George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, mynd af sér á Twitter samskiptasíðunni þar sem hann hámar í sig hamborgaramáltíð frá matsölustaðnum Byron. The Economist veltir því upp hvort Osborne, sem hefur sætt gagnrýni fyrir niðurskurð í útgjöldum ríkisins, vilji með þessum hætti birta af sér alþýðulegri mynd. En vegna þess að hamborgaramáltíðin frá Byron kostar heil tíu pund, jafnvirði um 1.900 króna, gefur myndin til kynna að Osborne sé ekki í nokkrum takti við alþýðuna, að mati The Economist.

Þess má geta að hamborgarar sem blaðamenn Viðskiptablaðsins hafa fengið á veitingahúsum í Bretlandi hafa verið heldur ómerkilegir. Á síðasta ári opnaði Tommi á Hamborgarabúllunni útibú í London til þess að bæta úr því. Ef marka má umfjöllun The Economist fer samkeppnin harðnandi.