*

Menning & listir 16. ágúst 2020

Hamilton jók áhugann á Disney+ um 20%

Söngleikur um landsföðurinn vekur bæði áhuga áhorfenda á streymisveitum og nemenda á sögunni.

Áhugi neytenda á streymisveitu Walt Disney fyrirtækisins jókst um 20% í júlímánuði síðastliðnum, en stór hluti ástæðunnar, utan þess að kórónuveirufaraldurinn hefur haldið fleirum innandyra, virðist vera bandaríski söngleikurinn Hamilton.

Um er að ræða upptöku af söngleiknum frá sýningu hans á Broadway sem birt var á streymisveitunni Disney+ 3. júlí síðastliðinn, og um fimmtungur allra notenda hennar horfðu á. Ef horft er yfir allar 5 helstu streymisveiturnar fór 7% alls áhorf á þeim yfir á söngleikinn samkvæmt tölfræði sem gagnafyrirtækið 7Park tók saman og Yahoo finance fjallar um.

Til viðbótar jókst notkun streymisveitna almennt séð í júlímánuði um 3% frá júnímánuði, mikið því notendur Disney+ nýttu þjónustuna í yfir 100 mínútur á dag. Í heildina var notkunin að meðaltali 662 mínútur á streymisveitunum í júlímánuði, væntanlega í Bandaríkjunum.

Hamilton söngleikurinn fjallar um bandaríska landsföðurinn Alexander Hamilton og hefur uppsetningin hlotið mikið lof gagnrýnenda og vinsældir síðan hann var frumsýndur í ársbyrjun 2015. Í söngleiknum er rapp, R&B og ýmis konar önnur tónlist notuð til að fara yfir sögu mannsins sem var hægri hönd George Washington fyrsta forseta landsins og prýðir nú 10 dala seðilinn.

Áhuginn á söngleiknum hefur verið svo mikill að bandarísk menntasamtök hafa nýtt hann til að ýta undir áhuga og útbreiðslu kennslu í sagnfræði í Bandaríkjunum, en fjallað var ítarlega um Gilder Lehrman Institute of American History í tímaritinu City Journal sem horfir á borgarmálefni ýmis konar. Tímaritið hefur áður fjallað um Hamilton söngleikinn sem og um Alexander Hamilton sjálfan.

Vinsældir Hamilton hafa leitt til þess að Disney fyrirtækið skoðar nú að birta fleiri söngleiki á streymisveitu sinni, þar á meðal söngleikinn Once On This Island.

Keppinautarnir á Netflix hafa þegar trygt sér réttinn á sýningu söngleiksins um Díönu prinsessu, þó hann sé enn ekki kominn á fjalir Broadway. Upphaflega átti að sýna hann þar 31. mars síðastliðinn en vegna kórónuveirufaraldursins hefur frumsýningu verið frestað til maímánaðar á næsta ári.

Stikkorð: Netflix  • Alexander Hamilton  • Disney+  • söngleikur  • Hamilton