*

Menning & listir 18. janúar 2014

Hamlet: Dúndurleikrit keyrt á of fáum leikurum

Ólafur Darri sýnir stórleik í nýrri uppfærslu Borgarleikhússins á Hamlet. Blaðamaður Viðskiptablaðsins sá sýninguna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Stórleikarinn Ólafur Darri Ólafsson á sviðið í uppfærslu Borgarleikhússins á leikritinu Hamlet eftir William Shakespeare. Slíkur er leikurinn að hann verður eins og Shakespeare, þeir skyggja á aðra. Ólafur Darri er hreinast sagt stórkostlegur og textinn bunast út úr honum með andardrættinum. Hann kann þetta frá a til ö.

Það er nánast óþarfi að kynna leikritið, þetta risastykki í leiklistarsögunni sem nú er leikstýrt af Jóni Páli Eyjólfssyni. Í mjög stuttu máli fjallar það um Danaprinsinn Hamlet sem horfir upp á það að faðir hans deyr og  móðir hans giftist frænda hans, föðurbróðurnum. Afturganga látna kóngsins snýr svo aftur til að segja syni sínum frá því að hann hafi í raun verið myrtur af þeim sem tók við krúnunni. Svikin verða vart verri og ættu að æra hvern þann sem fyrir þeim verður. En Hamlet heldur fast í sitt vit. Í raun er svo vakandi að hann gerir sér upp geðveiki í þeim tilgangi að koma upp um morðingjann. Afleiðingarnar eru skelfilegar.

Leikmynd Ilmar Kristjánsdóttur, tónlist Úlfars Eldjárns og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar mynda frábæra heild í tímalausri uppfærslu á Hamlet. Á stöku stað verður hún stórkostleg. Erfitt er þó að sjá hvað járnrörin sem mynda leikmyndina eiga að tákna annað en afspyrnuljótan og kaldan miðaldakastala. Notkun sviðsins er jafnframt skemmtileg þótt ég hafi átt von á meiru.

Erfiður texti

Aðrir leikarar eru allt í lagi en varla meira en það, slíkur er kraftur Ólafs Darra. Þeir hefðu mátt tala hærra, sérstaklega Hilmar Jónsson í hlutverki Kládíusar sem stelur krúnunni en ekki sviðinu. Mér stóð ekki ógn af honum jafn lágróma og hann var. Öðru máli gegnir reyndar um ráðgjafa hans, Jóhann Sigurðarson, sem kann að láta röddina hljóma vel. Gallinn var hins vegar sá að mér finnst hann orðið fara einum of oft með svipuð hlutverk í of mörgum leikritum. Flestir reyndar hefðu mátt sýna fylgja fordæmi Ólafs og leika meira. Textinn hefur máske reynst þeim of hár þröskuldur enda fannst mér á stundum eins og meiri áhersla hefði verið á að koma frá sér óbrengluðum textanum. Ég skil það sosum.

Reyndar botnaði ég lítið í því hvaða fingraför Jón Atli Jónassonar á að hafa sett á sýninguna önnur en stöku nýyrði á borð við fokk og eitthvað um að setja á netið og annað smálegt. Ég einfaldlega áttaði ég mig ekki á þeim. En það má ef til vill skrifa á mig. Hitt er þó ágætt, að leikritið hefur verið stytt verulega, úr um fjórum, fimm tímum í þrjá sem hentar foreldrum ágætlega sem þurfa að borga barnapíu sem situr heima - nú eða í stöðumæli. 

Of fáir leikarar

Nokkur atriði pirruðu mig. Það sem stakk mest í augu - og þar er ég sammála nafna mínum - að fleiri leikarar hefðu mátt taka þátt í uppfærslunni. Þeir Halldór Gylfason og Sigurður Þór Óskarsson leika hvor þrjú hlutverk. Þar af eru þeir Guildenstern og Rosenkranz, grafari, prestur og leikari. Það sama á við um þau Hilmar Guðjónsson og Hildi Berglindi Arndal. Hildur leikur reyndar bæði Ófelíu Póleníusardóttur og norska prinsinn Fortimbras, sem virkaði klaufalega. Fleiri hefðu leikararnir mátt vera enda hreinlega leiðinlegt að sjá þá sömu í nokkrum hlutverkum.     

Í hnotskurn: Þessi nýja útgáfa á Hamlet í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar er frábær, stutt, skemmtileg og með öll þau gæðakrydd sem gott verk þarf á að halda. Stórkostlegur leikur Ólafs Darra Ólafssonar heldur henni uppi. Ef eitthvað er mættu leikararnir vera fleiri.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.