*

Ferðalög 6. júní 2013

Handfarangur í flugvél freisting fyrir þjófa

Fólk er oft grunlaust á ferðalögum og heldur að handfarangur í flugvélum og á færiböndum öryggisleitar sé öruggur. En það er rangt.

Stolið er úr handfarangri í flugvélum oftar en fólk hefði haldið samkvæmt grein á cnn.com.

Fólk setur oft verðmætustu gripina sína í handfarangur því þar heldur fólk að hlutirnir séu öruggari en í ferðatöskunum sjálfum sem fara á færibandið og úr augsýn í marga klukkutíma.

En samkvæmt greininni kemur í ljós að þjófnaður úr handfarangri er algengur. Það sem auðveldar þjófunum að stela á flugi er sú staðreynd að fólk er ekki eins mikið á varðbergi því það heldur að fólk steli síður af nágranna sínum og í svona mikilli nálægð.

Á síðasta ári voru 24% af þjófnuðum á ferðalögum stuldur úr handfarangri um borð í flugvélum. Algengt er líka að farþegar gleymi fartölvum sem þeir geyma undir sætunum á meðan á fluginu stendur. Og þá hefur komið fyrir að þeim sé stolið af starfsfólki flugfélagsins sem sér um að þrífa vélarnar á milli fluga.

Aðrir vinsælir staðir fyrir þjófa er öryggisleitin en þar fer fram 18% þjófnaða á ferðalögum. Auðvelt er fyrir þjófa að athafna sig á þeim svæðum því fólk er oft utan við sig í öryggisleitinni þegar það þarf að fara úr skóm, passa upp á börn og fleira. Dæmi eru um þjófagengi sem kaupa sér ódýra farmiða aðeins til herja á aðra farþega á flugvöllum.

Lögreglan mælir með því að fólk setji lása á töskur sem það hyggst geyma í handfarangri. Þannig er síður hægt að stela úr töskunum í miðju flugi en erfiðara er fyrir þjófa að kippa allri töskunni með sér úr fluginu. Einnig er mælt með því að fólk missi aldrei fartölvur eða annað úr augsýn á færibandinu í öryggisleitinni. 

Stikkorð: Flugvélar  • Þjófar  • Flugvellir