*

Sport & peningar 9. janúar 2016

Handvelur ítalskt vín

Emil Hallfreðsson og Hrefna Rósa Sætran eru meðal stofnenda fyrirtækisins Cantina ehf.

Cantina ehf. er nýlega stofnað fyrirtæki sem ætlað er að flytja inn sérstakar tegundir ítalsks léttvíns.

Cantina var stofnað af Emil Hallfreðssyni, landsliðsmanni í fótbolta, sem er búsettur í Veróna á Ítalíu. Þar spilar hann fyrir liðið Hellas Verona.

Meðal þeirra sem koma að stofnun félagsins eru Hrefna Rósa Sætran, yfirkokkur og stofnandi Fiskmarkaðarins í Aðalstræti, ásamt Ágúst Reynissyni sem er helmingsmeðeigandi í Fiskmarkaðnum.

Þá kemur Guðlaugur Pakpum Frímannsson einnig að stofnun Cantina, en hann er meðeigandi Grillmarkaðarins sem er að helmingi til í eigu Fiskmarkaðarins, og að helmingi til í eigu Guðlaugs og Guðbjargar Hrannar Björnsdóttur sem deila helmingnum á milli sín.

Kynntist vínbónda í Verona

Hrefna segir Emil hafa kynnst ítölsku vínmenningunni til hlítar meðan á dvöl hans þarlendis hefur staðið. Hann mun hafa komist í kynni við vínbónda eftir að hafa verið boðið til smökkunar, og kynnin þau urðu þá grunnurinn að samstarfinu í kringum innflutning vínsins.

„Hann er með æð­ islegt aðgengi og er búinn að kynnast vínbónda þarna úti á Ítalíu,” segir Hrefna. „Við fórum í heimsókn til hans í Veróna núna í nóvember. Við smökkuðum vín hjá honum og það var mjög gott. Við ætlum að byrja á að flytja það inn.“ Það er mjög skemmtilegt að geta farið út og fengið söguna beint í æð, og geta svo komið því áfram. Vínframleiðandinn er fjölskyldufyrirtæki sem hefur verið starfrækt í 500 ár, og við heimsóttum þau í stóran kastala.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.