*

Sport & peningar 3. júlí 2018

Haraldur nálgast Opna Breska

Haraldur Franklín Magnús er nálægt því að verða fyrsti karlkyns kylfingurinn til þess að vinna sér þátttökurétt á stórmóti í golfi.

Ástgeir Ólafsson

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur er hársbreidd frá því að tryggja sér þátttökurétt á Opna Breska meistaramótinu í golfi. Haraldur hefur í dag leikið á úrtökumóti fyrir Opna mótið. Þegar þetta er skrifað hefur leiðir Haraldur mótið á tveimur höggum undir pari en hann lauk leik nú fyrir skömmu. Þrír efstu kylfingarnir í mótinu vinna sér þátttökurétt á Opna Breska.

Vinni Haraldur sér þátttökurétt yrði hann fyrsti karlkyns kylfingurinn frá Íslandi til að taka þátt í stórmóti. Þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir náðu báðar þeim áfanga á síðasta ári.  

Eins og áður segir leiðir Haraldur mótið en á eftir honum eru þrír kylfingar á einu höggi höggi undir pari en þeir eiga allir eftir að ljúka leik. Meðal þeirra er Suður-Afríku maðurinn Retief Goosen. Þess má þó geta að töluverður vindur er á svæðinu eða um 7 metrar á sekúndu samkvæmt veðurmiðlum.

Komi til þess að kylfingar verði jafnir um þriðja og síðasta sætið eða fleiri verður gripið til bráðabana.    

Stöðuna í mótinu má sjá hér. Skor kylfinga er uppfært á þriggja holu fresti. Hér má sjá beina lýsingu frá þeim völlum sem leikið er á í dag. Haraldur lék á Prince's vellinum.