*

Matur og vín 29. maí 2018

Harðfisksúpa valin þjóðlegasti rétturinn

Harðfisksúpa bar sigur úr bítum í samkeppninni „Þjóðlegir réttir á okkar veg“.

Í gærkvöldi fór fram samkeppni sem Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn stóðu fyrir, en hún kallast „Þjóðlegir réttir á okkar veg“. Eliza Reid, forsetafrú og verndari íslenska kokkalandsliðsins sá um að afhenda verðlaunin.

Harðfisksúpan hans Baldurs Garðarssonar varð fyrir valinu sem besti þjóðlegi rétturinn. Einnig fór fram netkosning þar sem vinsælasti rétturinn var valin, en Fjallagrasa brulee eftir Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur hlaut þar flest atkvæði.

107 fjölbreyttar hugmyndir og uppskriftir bárust alls og völdu nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann 15 rétti sem kepptu til undanúrslita. 16 veitingastaðir víða um land munu svo velja einn eða fleiri rétti til að hafa á matseðlum sínum frá og með miðjan júní.

Í fréttatilkynningu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er sagt frá því að megin tilgangur keppninnar hafi verið að efla áhuga, stolt og þekkingu á íslensku hráefni og matarmenningu.

Stikkorð: Matur  • Eliza Reid  • Harðfisksúpa  • Baldur Garðarsson