*

Hitt og þetta 7. maí 2013

Hárígræðslur í Tyrklandi, fyrir yfirvaraskegg

Í kúltúr þar sem slappt yfirvaraskegg þykir merki um litla karlmennsku er hárígræðsla í andlit fegrunaraðgerð sem nýtur mikilla vinsælda.

Hárígræðslur í andlit er nýjasta æðið í Tyrklandi ef marka má tölur frá lýtalæknum og ferðaskrifstofum þar í landi. The Wall Street Journal segir nánar frá málinu hér

Hárígræðslur á skallabletti hafa notið vinsælda í Tyrklandi í mörg ár. En nú er ekki bara hægt að fara í hárígræðslu á höfuðið heldur á svæðinu fyrir ofan efri vörina.

Karlar frá Mið-Austurlöndum, Evrópu og Asíu fjölmenna nú til Istanbúl í fegrunaraðgerðina samkvæmt tölum frá ferðaskrifstofum og lýtalæknum.

Aðgerðin fer þannig fram að hár eru fjarlægð af loðnum stöðum á líkamanum og grædd í fyrir ofan efri vörina til að þykkja hárvöxtinn á því svæði. Aðgerðin tekur um fimm klukkustundir og getur kostað allt að 5000 dölum eða um 580 þúsund krónur.

Ferðaskrifstofur hafa þegar byrjað að bjóða svokallaða hárígræðslupakkaferðir þar sem hárígræðslum, verslun og strandferðum er skellt saman í einn hressan pakka. 

Selahattin Tulunay er lýtalæknir og stofan hans er í hverfi sem gjarnan er nefnt „Beverly Hills Istanbul". Selahattin byrjaði að græða hár í andlit fyrir tveimur árum og gerir í dag um 60 aðgerðir í mánuði. Hann segir yfirvaraskeggið aftur komið í tísku enda hafi slappt yfirvaraskegg oft verið talið merki um laskaða karlmennsku.

Og fólki, sem leitar til Tyrklands í fegrunaraðgerðir, fjölgar. Árið 2012 komu um 270.000 manns til Tyrklands í fegrunaraðgerðir samanborið við 156.000 manns ári áður.

Stikkorð: Istanbúl  • Tyrkland  • Yfirvaraskegg