*

Bílar 24. janúar 2012

Harley Davidson-hjólin renna út eins og heitar lummur

Afkoma Harley-Davidson í fyrra var yfir væntingum. Aðhaldsaðgerðir skila því að yngra fólk kaupir hjól undir merkjum fyrirtækisins.

Bandaríski mótorhjólaframleiðandinn Harley-Davidsson skilaði hagnaði upp á 105,7 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Afkoman er yfir væntingum enda um vænan viðsnúning að ræða eftir 46,8 milljóna dala tap á sama uppgjörsfjórðungi í hittifyrra.

Hagnaðurinn jafngildir 46 sentum á hlut samanborið við 20 senta tap á hlut í hittifyrra.

Tekjur námu rétt rúmum einum milljarði dala á fjórðungnum í fyrra samanborið við 917,1 milljón á sama tíma ári fyrr. Þetta var svipuð niðurstaða og greinendur höfðu búist við.

Erlendir fjölmiðlar, svo sem Reuters, hafa eftir Keith Wandell, forstjóri Harley-Davidson, að uppgjörið sé yfir væntingum, það skýrist af því að væntingar Bandaríkjamanna til efnahagslífsins hafi batnað og þeir því fest kaup á mótorhjólum í meira mæli en búist var við. Þá hafi markhópurinn stækkað. Hann hefur fram til þessa miðast við kynslóðina sem fædd er eftir seinna stríð. Hluti af hagræðingaraðgerðum fyrirtækisins í kreppunni fólust einmitt í því að búa til ódýrari hjól fyrir yngri aldurshópa.

Stikkorð: Harley Davidson