*

Hitt og þetta 2. september 2020

Háskólinn í Reykjavík meðal þeirra bestu

HR er efstur íslenskra háskóla á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi og meðal 350 bestu í heimi.

Háskólinn í Reykjavík hefur komist á lista meðal 350 bestu háskóla í heiminum og efstur á lista yfir áhrif rannsókna í fræðasamfélaginu. Á nýútkomnum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims, sem birtur var í gær, er Háskólinn í Reykjavík í sæti 301-350 og efstur íslenskra háskóla.

Enn fremur er HR áfram í efsta sæti listans á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna í fræðasamfélaginu. Áhrifin eru metin út frá fjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.

„Í alþjóðlegu háskólasamfélagi er mikið horft til lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi. Þó slíkir listar séu ekki endanlegur dómur um gæði háskólastarfs, getum við ekki annað en verið stolt og ánægð með þessa stöðu HR. Að vera talin meðal 350 bestu háskóla í heimi og efstur íslenskra háskóla er frábær árangur fyrir ungan og vaxandi háskóla,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

„Það er líka stórkostlegt að sjá að annað árið í röð er svo mikið vitnað í okkar rannsóknir að við erum í efsta sæti þegar kemur að áhrifum rannsókna. Þetta er skýr vitnisburður um það öfluga vísindastarf sem á sér stað innan veggja HR og það er rík ástæða til að óska starfsfólki HR hjartanlega til hamingju.“

Listi THE byggir m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið. Áhrif rannsókna eru metin út frá upplýsingum frá Elsevier um rúmlega 86 milljónir tilvitnanir í 13,6 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin.

Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða. Í sumar var greint frá því að HR sé í 59. sæti yfir bestu ungu háskóla í heimi, 50 ára og yngri og í 18. sæti á lista yfir smærri háskóla, með færri en 5000 nemendur.