*

Bílar 23. september 2018

Hátæknivæddur A-Class

Nýja kynslóðin sem nú mætir til leiks er enn ein tímamótaútgáfan af bílnum og þá aðallega á tæknisviðinu því þessi nýi A-Class er hátæknivæddur í meira lagi.

Róbert Róbertsson

Þegar kynslóðin á undan þessum nýja bíl kom á markað árið 2011 þótti hann mikill tímamótabíll enda hafði hann breyst mjög mikið frá hinum gamla A-Class. Bíllinn var kosinn Bíll ársins víða um heim m.a. á Íslandi hjá Bandalagi íslenskra bílablaðamanna. Nýja kynslóðin sem nú mætir til leiks er enn ein tímamótaútgáfan af bílnum og þá aðallega á tæknisviðinu því þessi nýi A-Class er hátæknivæddur í meira lagi.

Hátæknivæddur eins og stærri lúxusbílar

A-Class er sportlegur bíll og hönnunin hefur breyst talsvert á milli kynslóða þótt heildarsvipur á boddíinu sé að mörgu leyti sá sami. Framljósin eru áberandi öðruvísi og gefa framenda bílsins stílhreint og flott yfirbragð. A-Class hefur stækkað aðeins, breikkað og lengst svo pláss fyrir farþega og farangur er því meira en í forveranum. Innanrými bílsins er sérlega vel hannað og vandað og tæknin í bílnum er byltingarkennd fyrir bíl í þessum stærðarflokki. Mesta breytingin á bílnum er að innan þar sem mikið hefur verið bætt í frá því að fyrri kynslóð bílsins kom fram. Innanrýminu svipar til stærri lúxusbíla Mercedes-Benz með stórum og breiðum skjá. Lofttúðurnar eru flottari en áður og meira lagt í mælaborðið en í forveranum.

A-Class er orðinn hátæknivæddur eins og stærri lúxusbílar Mercedes-Benz, E-Class og flaggskipið S-Class. A-Class er nú m.a. kominn með hið magnaða Intelligent Drive sem er í S-Class bílnum og veitir ökumanni og farþegum mikil þægindi í akstrinum. Þetta er nettur lúxusbíll þar sem boðið er upp á margt af því besta.

Talað við bílinn

Þá er bíllinn með hinu nýja og háþróaða raddstýringarbúnaði Hey Mercedes sem þýski lúxusbílaframleiðandinn hyggst setja í alla nýja bíla sína á næstunni. Það er eins og að vera kominn inn í framtíðina þegar maður er farinn að tala við bílinn en þetta er ansi magnað. Með því að segja „Hey Mercedes" þá svarar kvenmannsrödd að bragði: „How can I help you?" Ég segi þá: „Can you switch the light to blue?" Þá svarar kvenmannsröddin aftur og staðfestir aðgerðina og framkvæmir hana tafarlaust. Ljósin í innanrýminu verða blá. „Hey Mercedes. I am cold." Og þá hækkar hitinn umsvifalaust. Það er gaman að þessu. Svona er tæknin orðin og þetta er án efa það sem koma skal í fleiri bílum á næstu misserum.

Sætin í bílnum eru mjög sportleg og þægileg með rafdrifnum mjóbaksstuðningi í þessari útfærslu bílsins. Plássið er nokkuð gott fyrir bílstjóra og farþega fram í og ágætt fyrir tvo fullorðna aftur í en þrengir verulega að þegar sá þriðji bætist í miðjusætið aftur í. Það er heldur ekki fyrir hávaxna að sitja aftur í þar sem þaklínan kemur aðeins niður að aftan.

Ansi sprækur með bensínvélinni

Reynsluakstursbíllinn er A 200 með 1,4 lítra, 163 hestafla bensínvél. Hann er ansi sprækur með þessari kyrrlátu bensínvél sem gefur fínasta afl. Bíllinn er 8 sekúndur í hundraðið. Togið er 250 Nm og eyðslan er frá 5,2 l/100 km. CO2 losunin er frá 120 g/km. Tvær vélar eru í boði í hinum nýja A-Class til að byrja með. A 180d er með 116 hestafla dísilvél sem er 10,8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Togið er 260 Nm og eyðslan er frá 4,1 l/100 km. Innan skammst kemur síðan A 250 sem er talsvert aflmeiri bíll. Hann er 224 hestöfl, togið er 350 Nm og hann er aðeins 6,2 sekúndur í hundraðið. A-Class kemur einnig í AMG útfærslu en það verður þó ekki fyrr en um næstu áramót. Sá bíll verður gríðarlega öflugur eins og vænta má frá AMG deildinni hjá þýska lúxusbílaframleiðandanum í Stuttgart.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: A-Class  • Mercedez-Benz