*

Veiði 14. apríl 2016

Hátíð fyrir veiðimenn í Háskólabíói

Á RISE-veiðisýningunni verða sýndar myndir um stangaveiði, verslanir og veiðileyfasalar kynna vörur sínar og haldið málþing um laxeldi.

Trausti Hafliðason

Veiðisýningin RISE verður haldin í sjötta sinn í dag. Húsið opnar klukkan 16 og verður fjöldi verslana og veiðileyfasala með kynningu á sínum vörum. Haldin verður málstofa um laxeldi áður en fjórar myndir um fluguveiði víðsvegar um heim verða sýndar.
Hátíðin er hugarfóstur Ný-Sjálendingsins Nick Reygaert. Kristján Benediktsson, markaðsstjóri Angling IQ og eigandi Icelanda Angling Travel (IAT), hefur veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar hér á landi.

„Upphafið má rekja til ársins 2009 þegar Nick Reygaert kom til Íslands að taka upp myndina The Source - Iceland," segir Kristján, sem í veiðiheiminum er þekktur sem Stjáni Ben. „Ég gaf út diskinn hér heima fyrir jólin 2010 og í framhaldinu spurði Nick mig hvort ég væri til að halda hátíðina hér heima. Mér fannst það góð hugmynd og bókaði minnsta salinn í Bíó Paradís. Þetta var árið 2011."

Fjórar myndir

Það var alveg greinilegt að veiðimenn höfðu beðið eftir hátíð sem þessari því það varð uppselt löngu áður en hátíðin átti að hefjast.

„Mér tókst að færa þetta yfir í stóra salinn og til að gera langa sögu stutta þá var setið í öllum sætum. Það er alveg útpælt að halda þetta á fimmtudegi, því þá er engin Meistaradeild og fólk á líka auðveldara með að fara frá fjölskyldunni en um helgar."
Salurinn í Bíó Paradís tekur um 330 manns en Háskólabíó 1.000. Kristján segir að í fyrra hafi 713 manns keypt miða á RISE, sem sé ótrúlega mikið. Hann segir að salan núna gangi vel, hægt sé að kaupa miða á midi.is. Hann segist reikna með svipuðum fjölda núna og í fyrra.

Að þessu sinni verða fjórar myndir sýndar og samtals eru þær um einn og hálfur til tveir tímar að lengd. Welcome to Iceland er mynd eftir Þjóðverja sem kalla sig Brothers on the Fly. Myndin fjallar um árangurinn af veiða og sleppa-fyrirkomulaginu á Íslandi.  Aquasoul er mynd sem fjallar um saltvatns-veiði á flugu. Backcountry - South Island, er sjálfstætt framhald myndarinnar, Backcountry - North Island, sem sýnd var á hátíðinni í fyrra. Í Backcountry - South Island eru veiðimenn að eltast við silung í ám á Nýja-Sjálandi. Turning Points North er mynd, sem fjallar um geidduveiði í Kanada. Gedda (e. Pike) er hvasstenntur ránfiskur og mjög eftirsóttur á meðal sportveiðimanna víðsvegar um heim.

Veiðisýning og málþing um laxeldi

Eins og áður sagði þá opnar húsið klukkan 16 en ekki 18 eins og undanfarin ár. Myndirnar  sýndar klukkan 20. Ástæðan fyrir því að opnað er fyrr núna er að í tengslum við kvikmyndahátíðina er haldin veiðisýning í anddyri Háskólabíós og áður en kvikmyndahátíðin hefst verður haldin málþing í stóra salnum, þar sem fjallað verður um laxeldi á Íslandi.

Á meðal þeirra sem munu flytja erindi á málþinginu eru Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), Erlendur Steinar Friðriksson, sjávarútvegsfræðingur og doktorsnemi í fiskifræðum. Erlendur mun fjalla um umfang og áhrif sjókvíaeldis á norskum laxi í Eyjafirði. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar. Erindi hans nefnist Áskoranir í íslensku fiskeldi. Kjetil Hindar, yfirmaður rannsókna hjá Norsk institutt for naturforskning (NINA). Kjetil mun fjalla um erfða- og vistfræðileg áhrif strokinna eldislaxa á villta laxastofna í Noregi. Fundarstjóri er Hilmar Bragi Janusson, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Málþingið hefst klukkan 16.10.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • silungsveiði  • veiði  • laxveiði  • RISE  • veiðisýning