*

Matur og vín 27. desember 2019

Hátíðarvín Þorra

Þorri Hringsson vínsérfræðingur mælir með þremur mjög ólíkum vínum fyrir hátíðarnar.

Trausti Hafliðason

Þorri Hringsson myndlistarmaður hefur um árabil skrifað um vín. Á Facebook-síðunni Víngarðinum birtir hann reglulega slíka dóma. Fyrir lesendur Áramóta, tímarits Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, mælir Þorri með spænsku hvítvíni, frönsku freyðivíni og rauðvíni frá Toskana.

Louis de Grenelle Grande Cuveé Brut

Louis de Grenelle Grande Cuvée Brut er frábært freyðivín, gert með hefðbundinni kampavínsaðferð í Loire-dalnum, rétt sunnan við París. Það er gyllt að lit, blandað úr þrúgunum Chenin Blanc og Chardonnay og er bara býsna bragðmikið þótt það sé fínlegt og vel freyðandi. Þarna má finna sítrónubúðing, mandarínur, bökuð epli, vínarbrauð, hunang, flatkökur, brennt smjör, austurlenska ávexti og rjómakennda tóna. Verulega skemmtilegt, flókið og bragðmikið freyðivín sem er auðvitað frábært eitt og sér en er líka það matarvænt að það gengur vel með ýmsum forréttum, puttamat og léttum aðalréttum.

2.750 krónur.

Pago de Los Balagueses Chardonnay 2017

Spænsk hágæðavín úr þrúgunni Chardonnay hafa ekki verið algeng á Íslandi en nú er hægt að fá eitt slíkt frá Pago de Los Balagueses og gleymum ekki að innan spænska regluverksins er Pago einskonar Grand Cru útnefning.

Vínið er gyllt að lit og hefur meðalopna angan af eplaböku, perusafa, sætu sítrónusmjöri, ananas, nektarínum, niðursoðnum ávöxtum, kremuðum eikartónum og kalkkenndri jörð. Þessi ilmur gæti verið beint frá Búrgúnd (meira Chassagne en Meursault) en þetta gæti eins verið frá kaldari svæðum Kaliforníu. Það er svo þurrt, glæsilegt og sýruríkt í munni með langt og fínlegt bragð sem endurspeglar mun meira þrúguna og víngerðina en upprunasvæðið. Þarna er eplabaka, smjördeig, niðursoðin pera, ananas, sæt sítróna, kalkrík steinefni og reyktir tónar sem koma úr létt-sviðinni eik. Frábært vín og vel hægt að leggja það að jöfnu við góð Village- eða jafnvel Premier Cru vín frá Búrgúnd. Hafið það með bragðmeiri forréttum, feitum fiskréttum og ljósu fuglakjöti.

3.590 krónur.

Selvapiana Chianti Rufina Riserva Bucherchiale 2015

Þetta frábæra vín er auðvitað 100% úr þrúgunni Sangiovese og hefur þéttan kirsuberjarauðan lit og eins og títt er um vín úr Sangiovese er ekki langt í þessa múrsteinsbrúnu slikju. Það er svo rétt ríflega meðalopið með flókna og dæmigerða angan af Chianti þar sem finna má jarðarber, plómur, kirsuber, brómber, krækiber, lakkrís, balsam, Mon Chéri-mola, rykug steinefni og svo þessa flóknu ilmsnúninga sem minna á sedrusvið, línóleumdúk, striga, og nýprentað dagblað. Það er svo þurrt og sýruríkt með afar langt, fínlegt og flókið bragð sem er lengi að koma og lengi að fara og breytist í sífellu meðan það staldrar við. Það er ferskt með vænan skammt af pússuðum tannínum sem gerir það afar matarvænt og einnig eykur það líftíma þessa víns sem á sjálfsagt góðan áratug eftir þar til það fer að sýna einhver hrörnunarmerki. Þarna eru dökku berin heldur meira áberandi en í nefinu en þarna eru líka rauð ber, plómur, steinefni, brenndur sykur og balsam. Eiginlega er erfitt að telja allt það upp sem maður rekst á í glasinu, þið verið bara að prófa sjálf. Þetta er hátíðarvín, frábært með nauti, lambi og villibráð. Svo er þetta líka íhugunarvín til að njóta í heila kvöldstund í réttum félagsskap og til að setja í kjallarann.

4.550 krónur.

Fjallað er um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember. Þá munu áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Vín  • vínumfjöllun  • Þorri Hringsson