*

Hitt og þetta 30. ágúst 2013

Haustið sem þú átt skilið eftir sumarið sem aldrei kom

Fyrir fólk sem er örvinglað eftir vonskuveður sumarsins er ekki öll von úti. Hér eru ráð handa ykkur lesendur góðir.

Lára Björg Björnsdóttir

Margir upplifa sig svikna og sára eftir langt sumar af rigningu, roki og hitastigi í eins stafa tölu. September er mættur, skólarnir byrjaðir og vonin um bara einn vesælan dag í 20 stiga hita og sól er úti. Þetta er búið spil krakkar. Þetta er búið.

Og hvað er til ráða? Þú gætir auðvitað ákveðið að taka haustið með trompi, valsað til Eggerts feldskera og heimtað að besti veiðimaður landsins aflífi fimmtíu minka til að Eggert geti sniðið á þig eitthvað lekkert. Þessu getur þú síðan klæðst og til að fara alla leið gætir þú tekið með þér glasamottur úr ísbjarnaskinni þegar þú ferð í haustfagnaði, af því bara.

En ef svona lagað vex þér í augum og þig langar ekki til að hvolfast ofan í hyldýpi haustsins þá er auðvitað alltaf hægt að framlengja sumarið næstu vikur með alls kyns ráðum og blekkingum og svikum. Eins og þessum:

Húðlitur: Ljósakort og gulrótarolía eru svarið við grárri rigningarsumarshúð. Fyrir þá allra verst settu má prófa brúna skósvertu. Notaðu þessi tæki óspart og allir munu halda að þú eigir hús á Spáni. Þar dvaldir þú í sumar á meðan allir hinir drukknuðu í drullupollum. Ef þér snýst hugur og þú lætur Eggert sauma helvítis pelsinn þá segirðu fólki að þú hafir keypt hann í Valensía á uppboði í spilavíti.

Matur: Útbúðu risafat af léttu kjúklingasumarsalati sem þú skellir í tupperwarebox og ferð með í vinnuna. Þetta hámar þú í þig fyrir framan vinnufélagana sem eru allir komnir í „haustsúpurnar”. Ekki gefa neinum með þér því þetta er sérstakt sumarsalat.

Láttu öðrum líða illa: Auðvitað var ekkert rigning í allt sumar. Það skein einhver smávegis sól fyrir norðan í örfáa daga. Farðu á instagram- og facebookalbúm vina þinna. Finndu montmyndir af tjöldum og húsvögnum þeirra í sumarblíðu og skrifaðu komment um að myglusveppur hafi komið upp á tjaldsvæðum úti á landi í sumar og landlæknir sé búinn að gefa út að vissara sé að spúla allt draslið með ákveðnu eitri sem fæst einhversstaðar í Keflavík.

Þjóðgarðurinn: Þú ferð að sjálfsögðu á Þingvelli þegar haustlitirnir eru í hámarki. Þar skaltu baða þig á brókinni upp úr Öxará fyrir framan haug af kappklæddu samferðafólki. Til að sannfæra alla um að þér líði vel skaltu öskra af gleði, skvetta vatninu upp á bakkann og skvampast um og góla: „Gaman!” út í tómið. Náttúruperluflísklæddafólkið mun hugsa: „Sæll, það var ekki svona gaman hjá mér í sumar”. Síðan þurrkar þú þér, klæðir þig í maraþonbol, hleypur upp Almannagjá, gerir hnélyftur og hrópar á fólk að rýma til, hér sé þríþraut í gangi.

Nágrannar: Ekki láta nágranna þína koma þér úr sumarfíling. Þegar þú finnur sláturlyktina læðast inn um gluggann þinn eða upp stigaganginn skaltu dengja þér út á svalir með alvöru kolagrill og skella á það nokkrum marineruðum kótelettum. Með útvarpsþátt Sigga Hlö í botni. Taktu fram skúringarfötuna, skelltu rommi og ananas trópí í hana, raðaðu 20 rörum í kring og kallaðu fram af svölunum í gjallarhorn: „Rommfatan klár á kantinum y’all!” 

Stikkorð: Vonbrigði  • Vandræði  • Sumar  • Örvænting  • Vont veður