*

Matur og vín 15. október 2013

Haustkvöld með gúllassúpu Evu

Gúllassúpan er í væntanlegri bók Evu, Matargleði Evu, sem kemur út í nóvember. Þetta er hennar fyrsta matreiðslubók.

Það er næstum því skylda á dimmum haustkvöldum að elda súpur. Gúllassúpa er fínni gerðin af súpu og það ætti enginn að fara frá borðinu svangur eftir slíka máltið. Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir, matarbloggari og viðskiptafræðinemi, deilir hér uppskrift að gómsætri gúllassúpu og leiðbeinir lesendum við gerð hennar. 

Uppskriftin er úr væntanlegri bók Evu, Matargleði Evu, sem er væntanleg í nóvember. Að undanförnu hefur Eva því lagt lokahönd á bókina ásamt starfsmönnum bókaforlagsins Sölku. 

Gúllasdraumur

Uppskrift miðast á við fjóra til fimm manns.

 • 600 – 700 g nautagúllas
 • 2 msk ólífuolía 
 • 3 hvílauksrif, marin 
 • 1 meðalstór laukur, smátt skorinn
 • 2 rauðar paprikur, smátt skornar
 • 2 gulrætur, smátt skornar
 • 1 sellerístöng, smátt skorinn
 • 1 msk fersk söxuð steinselja
 • 5 beikonsneiðar, smátt skornar
 • 1 ½ l vatn 
 • 2 – 3 nautakraftsteningar
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 meðalstór rófa, skorinn í litla bita
 • 5 – 6 kartöflur, skrældar og niðurskornar
 • Salt og pipar, magn eftir smekk 
 • 1 tsk kummin
 • 1 tsk paprikuduft 

Hitið olíu við vægan hita í potti, mýkið hvítlauk og lauk í smá stund. Bætið nautakjötinu, paprikum, gulrætum, sellerí, steinselju og beikoni saman við og brúnið í 5 – 7 mínútur. Bætið vatninu og teningum saman við, hrærið vel í. Setjið tómatana, tómatpúrru, rófu, karöflur ofan í súpuna. Kryddið til með salti, pipar, paprikukryddi og kummin. Leyfið súpunni að malla í 40 – 60 mín við vægan hita. Berið súpuna fram með brauði og ef til vill smá sýrðum rjóma. Það er mjög mikilvægt að smakka sig til og frá með súpur, það getur verið að þið viljið meira krydd og jafnvel að þið viljið hafa meira grænmeti. Prófið ykkur áfram, það er líka það skemmtilega við súpur. Það er endalaust hægt að prófa sig áfram, útkoman verður oftast ansi góð.