*

Hitt og þetta 18. nóvember 2019

Besta EMBA gráðan hjá HEC Paris

Franski viðskiptaháskólinn HEC í París hoppar upp sex sæti á topp lista Financial Times yfir besta MBA námið 2019.

Samkvæmt uppfærðum lista Financial Times yfir besta EMBA námið  (e. executive MBA) á árinu 2019 eru það nemendur franska viðskiptaháskólans HEC í París sem fá bestu EMBA-prófgráðuna í ár. Skólinn hoppar upp sex sæti milli ára, aðallega vegna betri útkomu í mælingum á þróun starfsferils og starfsmöguleikum hjá útskrifuðum nemendum skólans. 

Að öðru leyti eru litlar hreyfingar á fyrstu fimm sætunum á listanum en þar sitja áfram EMBA-Global Asia, sem er skóli á vegum Columbia Businsess School, Háskóli Hong Kong og London Business School og Ceibs Global EMBA. 

Síðastliðin fimm ár hefur nemdendum í hefðbundnu MBA námi í Bandaríkjunum fækkað á hverju ári, að því er kemur fram í gögnum frá Graduate Management Admission Council sem hefur umsjón með inntökuprófum fyrir viðskiptaháskóla þar vestra. 

Svokallað EMBA nám (e. executive MBA) er sniðað að þörfum þeirra sem hafa nú þegar starfsferil að baki í viðskiptum og krefst ekki að fólk stundi fullt nám heldur geti það stundað skólann samhliða vinnu. Ólíkt hefðbundnu MBA námi þá eykst ásóknin í EMBA jafnt og þétt.

Það er EMBA nám Kellogg Business School í Bandaríkjunum og HKUST í Kína sem státar sig að útskrifa hæstlaunuðu EMBA nemendurna en meðalárslaun útskrifaðra nemenda úr samstarfi skólanna tveggja eru 513 þúsund dollarar eða 63 milljónir króna.  

Listi Financial Times yfir þá 10 skólana sem bjóða upp á besta EMBA námið er eftirfarandi 

1. HEC Paris í Frakklandi.

2. Kellogg/HKUST Business School í Bandaríkjunum og Hong Kong.

3. Trium: HEC Paris/LSE/NYU: Stern í Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Kína.

4. EMBA-Global Asia: Columbia/HKU/LBS í Bandaríkjunum, Kína og Bretlandi.

5. Ceibs í Kína, Sviss og Ghana.

6. EMBA-Global: Columbia/LBS í Bandaríkjunum og Bretlandi.

7. Washington University: Olin í Bandaríkjunum og Kína.

8. London Business School í Bretlandi og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum.

9. Tsinghua University/Insead í Kína, Singapore, Frakklandi og Abu Dhabi.

10. University of Oxford: Saïd í Bretlandi. 

Stikkorð: MBA nám  • HCE Paris