*

Bílar 7. september 2016

Hefur átt Skoda bíla í hálfa öld

Friðjón Hallgrímsson er án efa einn dyggasti Skoda-aðdáandi sem fyrirfinnst á Íslandi og þótt víðar væri leitað.

Ætli þetta sé ekki svona mikil íhaldssemi í mér,“ segir hann og brosir þegar hann er spurður af hverju hann hafi átt svona marga Skoda svona lengi. ,,Ég eignaðist fyrsta Skodann árið 1968. Það var Skoda 1000. Við keyptum reyndar bílinn þrír saman, ég, faðir minn og bróðir minn. Pabbi var ekki með bílpróf þannig að við bræðurnir keyrðum bílinn til skiptis. Þarna var Combi 100 alveg nýr bíll miðað við það sem hafði verið áður frá Skoda. Þeir breyttu Blöðrunni, eins og hún var kölluð, yfir í Octavia sem kom í millitíðinni. Síðan kom 1000 árið 1968,“ útskýrir Friðjón.

Langar ekkert í annað en Skoda

Þarna má segja að ástríða hans fyrir Skoda hafi byrjað. ,,Viðáttum þennan bíl í rúm fimm ár en síðan eignaðist ég annan 100 Combi og þá var ég einn um að kaupa bílinn. Ætli ég sé ekki búinn að eiga alls 12 Skoda bíla á þessum 48 árum. Ég hef ekki eignast aðra bíltegund en Skoda. Mig langar ekkert til þess því ég er mjög ánægður með Skoda og sé engan tilgang í því að vera að skipta um bíltegund. Ég er hins vegar búinn að prófa allnokkrar tegundir af Skoda bílum í tæpa hálfa öld,“ segir hann.

Friðjón á núna Skoda Rapid með díselvél sem hann keypti nýjan í desember 2013. ,,Þetta var fyrsti Skoda Rapid bíllinn sem var skráður á landinu. Þetta er mjög góður bíll, aðeins minni en Octavia en hentar okkur hjónunum mjög vel. Hann er þægilegur og góður í alla staði og mjög hagkvæmur. Hann eyðir litlu enda eru þessar díselvélar eyðslugrannar. Ég hef alltaf átt bensínbíl þar til ég eignaðist þennan og ég er mjög ánægður með hann. Hann er líka með mikið tog og fer létt með að draga fellihýsið. Þetta er dugnaðarforkur,“ segir Friðjón.

Handbremsan fraus reglulega

Hann segir að margir Skodarnir hafi verið eftirminnilegir fyrir ýmsar sakir. ,,Á áttunda og níunda áratugnum komu alls konar kvillar upp í Skoda bílunum. Það þótti jafnvel eðlilegt að handbremsan frysi í köldu veðri. Vírinn í bensíngjöfina átti til að slitna og þetta gat verið svolítið bras. Sem betur fer er þetta liðin tíð hjá Skoda. Þetta var samt oft svolítið broslegt en maður lét sig hafa það. Það var ákveðinn karakter í þessum bílum.“

Friðjón starfaði sem farandbóksali um margra ára skeið árin frá 1979 og breytti þá stundum Skoda 100 Combi bíl sínum í bóksölubíl. ,,Ég tók öll sætin úr honum nema bílstjórasætið til að koma nógu mörgum bókum fyrir. Ég ók bílnum um landið í mörg ár og seldi bækur. Þetta þótti svolítið skondið en manni var vel tekið á Skoda bóksölubílnum um allt land. Ég tók nokkra hringi í kringum landið á þessum bíl.“

Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.