*

Heilsa 24. mars 2017

Hefur öðlast sitt eigið líf

Ný útgáfa af flothettunni sem slegið hefur í gegn hér á landi verður kynnt í nýjum húsakynnum Systrasamlagsins að Óðinsgötu 1 í dag.

Kolbrún P. Helgadóttir

Flothettan er íslensk hönnun, hönnuð af Valdísi Kristjánsdóttur, vöruhönnuði en hettan kom fyrst á markað árið 2011. Síðan þá hefur hún öðlast sitt eigið líf, óháð þeim sem að baki henni standa. Sá heimur sem hún hefur opnað er heimur slökunar, samveru og náttúruupplifunar.

„Hönnunin á nýja mynstrinu tekur mið af þeirri upplifun að fljóta í vatni. Sú ró og afslöppun sem felst í upplifuninni er myndgerð með samruna mannsins við vatnið. Fljótandi mannsform sem tengjast og verða eitt með vatninu, form sem tákna öldur, bylgjur og dropa umlykja mannsformin og mynda símynstur sem er í senn í jafnvægi við sjálft sig, en á sífelldri hreyfingu,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir annar eigandi Systrasamlagsins. Hún segir jafnframt að allt ferlið í kringum flothettuna sé búið að vera langt mjög langt ferli. „Hún fór ekki almennilega í umferð fyrr en við systur tókum hana í fangið  komum henni á framfæri þegar við stofnuðum Systrasamlagið árið 2013. Við vissum strax að þarna var eitthvað á ferð sem fleiri þyrftu að njóta og hún passaði mjög vel inn í hugsjónir okkar um jóga og hugleiðslu og yrði falleg viðbót við jóga menninguna sem við systur lögðum upp með í Systrasamlaginu.“

Heimur slökunar

Haustið 2013 fóru þær stöllur að prófa sig áfram við hin Samflot í Sundlaug Seltjarnarness. „Til að byrja með mættum við bara þrjár, ég, Jóhanna systir og Unnur og fólk horfði á okkur í forundran. Síða bættist fólk við og fór að uppgötva galdra þess að fljóta. „“The rest is history.““ Nú hafa Samflot smitast í sundlaugar um allt land og vel að merkja til Noregs líka. Því má segja að Flothettan hafi öðlast eigið líf óháð okkur sem að baki henni stóðum í upphafi. Það er mikil fegurð í því. Þessi heimur er sannarlega heimur slökunar, samveru og náttúruupplifunnar.“

Að sögn Guðrúnar er nú er mikill uppskerutími því flothettan hafi einmitt fengið hönnunarverðlaun Reykjavík Grapevine á dögunum og því næst er það nýja hettan sem kynnt verður formlega á morgun. „Nýja flothettan verður skreytt með fallegu mynstri eftir hinn frábæra hönnuð Sigga Odds.“

 Ómótstæðilegt ástand

Aðspurð um þessa miklu töfra flotsins segir Guðrún að fyrir utan augljósu kosti þess að slaka á þá hafi vísindamenn tengt jákvæðar niðurstöður af floti beint heilabylgjunum. „Það er hið ómótstæðilega notalega ástand sem skapast rétt áður en við svífum inn í svefninn. Þegar alger ró færist yfir. Við getum líka þekkt þessa tilfinningu milli svefns og vöku á því að stundum kippist fólk við sem stafar að öllum líkindum af því að ákveðinn spennuþröskuldur rofnar.“ Guðrún segir einnig að eins af stærstu gjöfum flotsins sé að hægt sé að ná þessu ástandi á mjög skömmum tíma. „Það er því mjög líklegt að flot nýtist sérlega vel þeim sem eru í skapandi vinnu, t.d. eins og hönnuðum, rithöfundum, myndlistarmönnum, tónlistarmönnum, arkitektum og öðrum sem þurfa að tengja hugmyndir raunveruleikanum.“

Fleiri kostir þess að fljóta:

Fleira sem fljótandi hugleiðsla gefur af sér fyrir andlegt heilbrigði og taugakerfið er:

Dregur úr almennri streitu
Eykur sköpunarkraft
Dregur úr námsörðugleikum
Eykur einbeiting
Bætir svefn og dregur úr eða eða jafnvel læknar síþreytu
Kemur jafnvægi á efnaskipti líkamans
Jafnar virkni hægra og vinstra heilahvels
Gefur innri ró og frið og minnkar löngun í það sem er okkur óhollt
Dregur úr þunglyndi og hræðslu
Dregur úr mígreni

 

Fljótandi hugleiðsla fyrir vöðva og vefi:
Fljótandi hugleiðsla nær til okkar dýpstu vöðva sem þýðir að hún dregur úr verkjum og bólgum í liðum, baki, hálsi og flýtir fyrir bata eftir t.d. tognun.
Linar margskonar óþægindi sem stafa frá hryggnum, eins og t.d. vegna klemmdra tauga.
Fljótandi hugleiðsla dregur úr sjúkdómum sem stafa frá innri líffærum:
Dregur úr vandamálum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.
Kemur jafnvægi á blóðþrýsting.
Eykur upptöku laktasa.
Eykur upptöku súrefnis.
Dregur úr öndunarfærasjúkdómum.
Minnkar líkur á heilablóðfalli og krabbameini.
Styrkir ónæmiskerfið.

 

Stikkorð: Heilsa  • flothetta  • flot