*

Tölvur & tækni 22. febrúar 2016

Hefur trú á sýndarveruleikanum

Mark Zuckerberg er þeirrar skoðunar að sýndarveruleikatækni muni breyta og móta líf okkar í nákominni framtíð.

Karl Ó. Hallbjörnsson

Nú stendur yfir fjarskiptaráðstefnan Mobile World Congress í Barcelona. Þar sýna hinir helstu fjarskiptatækjaframleiðendur sínar nýjustu vörur á sviði snjallsíma og aukahluta við snjallsíma. Sérstaklega hefur sýndarveruleikatækni verið í brennidepli á hátíðinni, en Samsung kynnti einnig til leiks nýjan snjallsíma sinn Samsung Galaxy S7.

Á myndinni sem fylgir með fréttinni má sjá hvernig Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, gengur fram hjá ráðstefnuförum sem hafa sett sýndarveruleikagleraugu á andlit sitt. Þar horfðu þau á 360 gráðu sýndarmyndband af katalónskum fótknattleiksmönnum, og misstu alveg af því þegar stofnandinn heimsfrægi arkaði fram hjá þeim.

Zuckerberg hélt stutta ræðu yfir ráðstefnuförum og lýsti þeirri skoðun sinni að sýndarveruleiki væri framtíð tækninnar og næsti 'stóra' tæknin. Hann telur líklegt að sýndarveruleiki muni koma til með að gjörbreyta og móta líf okkar til muna í nákominni framtíð. Mark er ef til vill ekki sá hlutlausasti þegar að þessu kemur, en Facebook keypti fyrirtækið Oculus fyrir litla 2 milljarða Bandaríkjadala. Því velta talsverðir hagsmunir á því að þessi fjárfesting hans verði að raunveruleika í framtíðinni.

Samsung svipti hulunni af nýjum snjallsíma sínum, Galaxy S7, á ráðstefnunni. Helst ber að nefna þær nýjungar í símanum að hann er að miklu leyti vatnsheldur. Þá býður hann einnig upp á að bæta við auknu minni gegnum SD-kort. Stærsta nýjungin sem Samsung kynnti var þó aukahluturinn Galaxy Gear 360 sem tengist inn í sýndarveruleikagleraugun Gear VR og gerir notendum kleift að taka upp sín eigin sýndarveruleikamyndbönd.

Stikkorð: Facebook  • Mark Zuckerberg  • Sýndarveruleiki  • Tækni