*

Sport & peningar 28. september 2018

Heiðurinn undir

Stærsti viðburður í golfheiminum, Ryder-bikarinn, fer fram í Frakklandi um helgina. Bandaríkin eru talin sigurstranglegri en Evrópa hefur ekki tapað á heimavelli í 25 ár.

Ástgeir Ólafsson

Ryder-bikarinn í golfi hófst nú fyrir skömmu á Le Golf National-vellinum í Frakklandi. Er þetta einungis í annað sinn sem leikið er á meginlandi Evrópu en það gerðist síðast árið 1997. Keppnin sem fer fram á tveggja ára ára fresti á milli úrvalsliða Bandaríkjanna og Evrópu er af mörgum golfáhugamönnum talin stærsti viðburðurinn í golfheiminum. Er þetta í 42. skipti sem keppnin fer fram en sú fyrsta var haldin árið 1927. Frá því ári til 1979 var keppnin á milli úrvalsliða Bandaríkjanna og Bretlandseyja en eftir að Bandaríkjamenn höfðu nánast einokað keppnina allan þann tíma var allri Evrópu bætt við. Hvert lið er skipað tólf af bestu kylfingum Bandaríkjanna og Evrópu. Átta í hvoru liði spila sig inn í keppnina í gegnum stigafyrirkomulag á meðan fyrirliðar beggja liða velja svo fjóra kylfinga í lið sitt óháð stöðu þeirra.

Ekkert verðlaunafé 

Bikarinn fer þannig fram að leiknir eru samtals 28 leikir frá föstudegi til sunnudags og þarf því 14 og hálft stig til þess að vinna bikarinn en hver leikur fer fram með holukeppnisfyrirkomulagi. Það gengur þannig fyrir sig að nái kylfingur betra skori á holu en andstæðingur hans vinnur hann holuna. Hverjum leik lýkur þegar annar kylfingurinn er fleiri holum yfir en sem nemur þeim holum á vellinum sem eftir eru. Séu kylfingar jafnir eftir 18 holur fá bæði liðin hálft stig. Fari svo að liðin endi bæði með 14 stig halda Bandaríkin Ryder bikarnum sem ríkjandi meistarar. Ekkert verðlaunafé er veitt fyrir sigurinn heldur er einungis heiðurinn undir.

Á föstudeginum og laugardeginum er leikinn fjórmenningur og fjórbolti báða dagana og fara átta leikir fram hvorn dag. Fjórmenningur sem leikinn verður fyrir hádegi báða dagana fer þannig fram að tveir kylfingar leika saman og skiptast á að leika þangað til hverri holu er lokið. Fjórbolti fer þannig fram að tveir kylfingar leika saman í liði og gildir þá betra skor leikmanns á hverri holu. Í hverri umferð fyrstu tvo daganna hvíla því alltaf fjórir leikmenn í hvoru liði. Á sunnudeginum er hins vegar leikinn einmenningur (e. singles) þar sem allir tólf leikmennir spila og mætast þá maður á mann.

Bandaríkjamenn taldir líklegri

Samkvæmt veðbönkum er lið Bandaríkjanna talið sigurstranglegra en það evrópska. Stuðullinn á Bandaríkin er í kring um 1,83 á veðmálasíðum meðan stuðullinn á evrópska liðið er 2,25. Vinni Bandaríkjamenn yrði það í fyrsta sinn frá árinu 1993 sem þeim tekst að sigra á evrópskri grundu. Auk þess hafa Bandaríkin einungis sigrað sex sinnum frá árinu 1985.

Ástæðu þess að Bandaríkjamenn eru taldir sigurstranglegri má meðal annars rekja til þess að í liði Evrópu eru fimm nýliðar á meðan þrír eru í liði Bandaríkjanna. Auk þess eiga Bandaríkjamenn þrjá af fjórum efstu mönnum heimslistans. Bandaríkjamenn eiga einnig sex af tíu efstu mönnum heimslistans á meðan Evrópa á fjóra. Þá eru tíu af leikmönnum Bandaríkjanna meðal tuttugu efstu í heiminum á meðan sjö Evrópumenn eru þar á meðal.

Þrátt fyrir það skiptir staða leikmanna á heimslistanum litlu máli þegar á hólminn er komið. Sem dæmi sat Englendingurinn Ian Poulter í 26. sæti listans þegar hann vann alla fjóra leiki sína árið 2012 og lék lykilhlutverk í sigri Evrópu í því sem seinna hefur verið kallað kraftaverkið á Medinah þegar Evrópa vann eftir að hafa verið 10-6 undir eftir laugardaginn. Það er því erfitt að spá fyrir um hvernig muni fara í Frakklandi um helgina en það er hins vegar ljóst að golfáhugamenn geta átt von á veislu frá bestu kylfingum beggja vegna Atlantshafsins.

Lið Evrópu

 • Fyrirliði (liðstjóri): Thomas Bjørn - Dankmörk
 •  Francesco Molinari - Ítalía
 •  Justin Rose - Englajd
 • Tyrell Hatton - England
 • Tommy Fleetwood - England
 • Jon Rahm - Spánn
 • Rory Mcllroy - Norður Írland
 • Alex Norén - Svíþjóð
 • Thorbjørn Olesen - Danmörk
 • Paul Casey* - England
 • Sergio Garcia* - Spánn
 • Ian Poulter* - England
 • Henrik Stenson* - Svíþjóð

  *Valinn af fyrirliða

Lið Bandaríkjanna

 •  Fyrirliði (liðstjóri): Jim Furyk
 • Brooks Koepka  
 • Dustin Johnson 
 • Justin Thomas 
 • Patrick Reed
 • Bubba Watson 
 • Jordan Spieth
 • Rickie Fowler
 • Webb Simpson
 • Bryson DeChambeau*
 • Phil Mickelson*
 • Tiger Woods*
 • Tony Finau*

  *Valinn af fyrirliða

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: bikarinn  • Ryder