*

Menning & listir 14. apríl 2013

Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg í ágúst í ár

Skjaldborgarhátíðin er eini vettvangurinn fyrir íslenskt heimildarmyndagerðarfólk til að hittast og bera saman bækur sínar.

Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg verður haldin 15. -17. ágúst í ár en hingað til hefur hátíðin verið haldin yfir hvítasunnuhelgina. Á hátíðinni eru sýndar nýjar íslenskar heimildarmyndir og er hátíðin eini vettvangurinn fyrir íslenskt heimildarmyndagerðarfólk til að hittast og bera saman bækur sínar. Hátíðin er nú haldin í sjöunda sinn og verður haldin á Patreksfirði eins og fyrri ár. Venja er að heiðursgestur mæti á hátíðina og í ár verður engin undantekning á því.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður tilkynnt hver heiðursgesturinn er eftir tvær vikur. Í fyrra kom Max Kestner sem er danskur heimildarmyndaleikstjóri. Aðstandendur Skjaldborgar, kvikmyndagerðarmenn og annað áhugafólk um heimildarmyndir velja heiðursgestinn. Í lok hátíðar er valin besta heimildarmyndin og hefur hún oft vakið mikla athygli. Í fyrra vann myndin Hreint hjarta eftir Grím Hákonarson.

Stikkorð: Skjaldbortg  • Skjaldborg  • Heimildarmyndir