*

Hitt og þetta 9. mars 2018

Heimili ríkasta manns í heimi

Jeff Bezos, forstjóri Amazon, er fyrsti maðurinn til þess að eiga eignir fyrir meira en 100 milljarða dala.

Jeff Bezos, forstjóri Amazon, er fyrsti maðurinn til þess að vera metinn á yfir 100 milljarða dala en á nýjum Forbes lista eru eignir hans metnar á um 112 milljarða eða um 11.200 milljarða íslenskra króna.

Það var því ekki úr vegi að velta því upp hvert slíkur maður færi eftir vinnu og hvar hann haldi heimili. Svarið við þeirri spurning er þó ekki allskostar einfalt.

Í fyrsta lagi er Bezos 25. stærsti landeigandi Bandaríkjanna. Í öðru lagi á hann fimm heimili víðsvegar um landið að því er kemur fram á The Wall Street Journal.

Fyrsta heimili Bezos er á landareign hans í Medina í Seattle þar sem höfuðstöðvar Amazon eru staðsettar. Um er að ræða hús, í fleirtölu, við bakka Washington vatns en meðal nágranna hans eru nafntogaðir menn á borð við Bill Gates sem vermir jú 2. sætið á lista Forbes. Fyrsta húsið er rúmir 1.910 fermetrar, annað um 770 fermetrar og það þriðja sem Bezos bætti við árið 2010 telur 2.230 fermetra.

Annað heimili Bezos er á Manhattan í New York en það er samsett úr fjórum íbúðum í byggingu sem kallast Century og er staðsett í hverfinu við Lincoln torg. Heimili hans á Manhattan þykir þó ekki eins tilkomumikið og það fyrsta. Meðaljóninn myndi þó sennilega ekki hafa mikið út á það að setja. 

Þriðja heimilið er búgarður í Vestur-Texas en um er að ræða rúmlega 12.000 hektara land 40 kílómetrum frá Van Horn. Á búgarði Bezos er annað og ef til vill óþekktara fyrirtæki hans staðsett sem ber nafnið Blue Origin og framleiðir íhluti í og þjónustar geimskutlur.

Fjórða heimilið er heldur ekki af verri endanum því um er að ræða byggingu sem eitt sinn var textílsafn í Washington borg. Þegar fregnir spurðust af því að byggingin hefði verið keypt var talið að nýr eigandi myndi breyta því í íbúðabyggingu við lítinn fögnuð heimamanna. Þegar í ljós kom svo að Bezos hyggðist halda ytra útliti byggingarinnar og eiga þar heimili var því mikið fagnað. Þar á bæ eru nágrannarnir heldur ekki af verri endanum því í maí á síðasta ári keyptu Barack og Michelle Obama eign á svæðinu.

Það fimmta er staðsett í Beverly Hills í Kaliforníu þar sem Bezos á rúmlega 20.000 fermetra landareign. Þar eru hið minnsta tvö hús, annað 400 fermetrar en hitt 1.100 fermetrar. Nágrannarnir segja þó að Bezos sé ekki dulegur við að dvelja á þessu heimili því þau hafi einfaldlega aldrei hitt hann.