*

Menning & listir 17. maí 2019

Guðmundur áhyggjufullur vegna Eurovision

Heimkaup.is ætla að endurgreiða öll sjónvörp sem seldust í vikunni og fram að keppni ef Ísland vinnur Eurovision 2019.

Heimkaup.is ætla að endurgreiða öll sjónvörp sem seldust í vikunni og fram að keppni ef Ísland vinnur Eurovision 2019, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

„Stemningin hefur aðeins breyst frá því við ákváðum þetta fyrir tæpum tveimur vikum.  Það má eiginlega segja að þetta líti verr og verr út, eða betur, eftir því hvernig þú lítur á þetta," segir Guðmundur Magnason, forstjóri Heimkaup.is.

Það er kannski kaldhæðni örlaganna að það eru akkúrat 20 ár síðan Guðmundur bauð endurgreiðslu þegar Selma var fulltrúi Íslands í keppninni í Ísrael árið 1999. Guðmundur var þá markaðsstjóri BT og sagan segir að hann hafi verið á barmi taugaáfalls yfir atkvæðagreiðslunni. Selma hafnaði eins og allir vita í öðru sætinu en „meint stolið lag frá Svíþjóð rændi hana sigrinum", eins og sagði í blaðaklippu frá þessum tíma.

„Það verður gaman að fylgjast með á morgun, ætli maður verði ekki bara á róandi," segir Guðmundur hlæjandi.

Stikkorð: Ísland  • Eurovision  • Heimkaup  • Hatari