*

Sport & peningar 9. júlí 2021

Heimta frídag ef England vinnur EM

Um 320 þúsund Englendingar hafa skrifað undir lista til að kalla eftir að þingið veiti verkafólki frí ef England vinnur EM.

Englendingar eru farnir að setja pressu á Boris Johnson forsætisráðherra að gefa verkafólki frídag á mánudaginn ef enska landsliðinu tekst að vinna Ítali í úrslitum Evrópumótsins í fótbolta sem fer fram klukkan 19 á sunnudaginn. Boris segir þó að með því að veita frídag núna væri hann að „ögra örlögunum“, að því er kemur fram í frétt BBC.

Nú þegar hafa 320 þúsund manns skrifað undir undirskriftarlista til að skora á breska þingið að veita frídag. Þingið ber að taka til skoðunar alla undirskriftarlista með yfir 100 þúsund undirskriftum.

„Ég vil ekki gefa mér úrslit leiksins á sunnudaginn. Við viljum augljóslega að England vinni, fari alla leið og hneppi bikarinn, og þá munum við tilkynna um áform okkar,“ er haft eftir talsmanni Boris.  

Það var markaðsstjórinn Lee Jones sem fór af stað með undirskriftarlistann. „Englendingar vilja að sjálfsögðu fá að njóta sigursins áfram. Með því mun smásölu- og afþreyingariðnaðurinn fá sárvanta tækifæri til að vinna upp glataðar tekjur,“ segir Jones.

Breska verkalýðsfélagið TUC hefur kallað eftir því að fyrirtæki sýni sveigjanleika og leyfi starfsmönnum að koma í vinnuna seinna en vanalega á mánudaginn næsta.

Stikkorð: EM  • England  • frídagur