*

Veiði 10. ágúst 2014

Heldur betri veiði í ár en í fyrra

Veiðivörður í Veiðivötnum segir engar skýringar þekktar af hverju veiði í vötnunum sveiflast mikið milli ára.

Stangveiði í Veiðivötnum er um fimmtungi meiri það sem af er sumri en á sama tíma í fyrra. Alls höfðu 12.849 fiskar komið á land þann 30. júlí síðastliðinn, en á sama tíma í fyrra höfðu alls veiðst 10.689 fiskar. Ef veiðin verður í takt við þetta síðustu þrjár vikur veiðisumarsins mun heildarveiði sumarsins ná um 16.800 fiskum, en í fyrra veiddust alls 13.516 fiskar á stangveiðitímanum í vötnunum.

Stærsti fiskurinn sem komið hefur á land til þessa er 14 pund á þyngd, en meðalþyngd veiddra fiska er 1,35 pund. Hafa ber í huga að árið í fyrra var sérstaklega lélegt hvað veiði varðar, en til samanburðar má nefna að árið 2012 veiddust 19.647 fiskar og 21.240 fiskar árið á undan. Sú veiði bliknar hins vegar í samanburði við veiðina árið 2009 þegar alls veiddust 29.524 fiskar á stöng á stangveiðitímanum.

Í ágústlok hefst svo netaveiðitímabilið í vötnunum og eykst þá, eðli málsins samkvæmt, heildarveiðin. Í fyrra veiddust 19.777 fiskar alls í Veiðivötnum, sem þýðir að á netaveiðitímabilinu veiddist 6.261 fiskur. Mest var heildarveiðin árið 2010, eða ríflega 37.000 fiskar og var litlu minni árið 2009.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði  • Langavatn