*

Veiði 8. júlí 2017

Helgaði líf sitt verndun laxa

Þrátt fyrir allt það sem Orri Vigfússon gerði um ævina er hann án nokkurs vafa þekktastur fyrir starf sitt til verndar laxinum

Trausti Hafliðason

Orri Vigfússon er látinn. Í tæplega þrjá áratugi helgaði hann líf sitt verndun Norður-Atlantshafslaxins. Hann ólst upp á  síldarárunum á Siglufirði og eftir nám í London varð hann fyrsti framkvæmdastjóri Toyota á Íslandi. Þrátt fyrir allt  það sem Orri gerði um ævina er hann án nokkurs vafa þekktastur fyrir starf sitt til verndar laxinum. Fyrir þremur árum taldist honum til að Verndarsjóður villtra laxastofna og dóttursjóðir hans hefðu safnað um sex milljörðum króna.

Orri Vigfússon athafnamaður lést á Landspítalanum laugardaginn 1. júlí, þá 74 ára gamall. Orri var þjóðkunnur og þekktur víða um heim fyrir verndarstarf sitt. Árið 1989 stofnaði hann Verndarsjóð villtra laxastofna eða North Atlantic Salmon Fund (NASF). Allt frá þeim tíma og til dauðadags helgaði hann líf sitt að stórum hluta verndun laxa.

Orri hefur nokkrum sinnum verið viðmælandi í Viðskiptablaðinu og veiðisíðum blaðsins. Í apríl árið 2014 birtist ítarlegt viðtal við hann og hér á eftir verður stiklað á stóru í því sem hann hafði að segja þá.

Fæddist á Siglufirði

Orri Vigfússon fæddist þann 10. júlí árið 1942 á Siglufirði.

„Ég er síldarbarn,“ sagði Orri í viðtalinu vorið 2014. „Faðir minn, Vigfús Friðjónsson, var síldarsaltandi og ég ólst eiginlega upp í síldartunnu. Ég hef alltaf verið bisnessmaður og þarna byrjaði ég minn viðskiptaferil. Ætli ég hafi ekki verið svona ellefu eða tólf ára þegar ég byrjaði að selja fisk. Þá fór ég eftir skóla í hausahrúguna niður á bátabryggju og gellaði allan daginn. Síðan seldi ég fisksalanum í bænum alla framleiðsluna.

Það skipti miklu máli að þéna svo mikið um sumarið að maður gæti sjálfur borgað fyrir sínar skólabækur og föt — að maður þyrfti ekki að biðja mömmu og pabba um pening. Svona var þetta á Siglufirði á þessum tíma. Þarna vaknaði áhuginn á viðskiptum og peningum. Maður áttaði sig á því að það væri mikilvægt að vera með eitthvað á milli handanna til að geta haft í sig og á.“

Orri flutti suður til Reykjavíkur, þar sem hann hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík, en það var stutt stopp.

„Eftir eitt ár í Menntaskólanum fann ég að hugurinn leitaði annað. Ég flutti því til London þar sem ég bjó í sex ár. Ég kláraði stúdentsprófið þar, eða það sem kallast A-Levels, og fór síðan í viðskiptafræði í London School of Economics þar sem ég útskrifast árið 1965.“

Framkvæmdastjóri Toyota

Eftir dvölina í London flutti Orri heim til Íslands. Þá hafði faðir hans fengið umboðið fyrir Toyota á Íslandi og Orri var ráðinn framkvæmdastjóri.

„Við urðum strax á þessum tíma einn stærsti bílasali landsins. Það voru margir sem höfðu ekki trú á Toyota-bílunum á þessum árum enda voru þeir litlir en það breyttist. Ég hef aftur á móti engan áhuga á bílum og því átti þessi vinna ekkert sérstaklega vel við mig og ég hætti eftir þriggja ára starf.“

Fjölskylda Orra og fjölskylda Páls Samúelssonar voru bestu vinir frá Siglufirði og hafði Páll unnið hjá föður Orra í mörg ár. Þegar Orri hætti hjá Toyota þá tók Páll við umboðinu „enda hafði hann mikinn áhuga á bílum,“ sagði Orri.
Eftir árin hjá Toyota var Orri ráðinn til Félags iðnrekenda. Hann starfaði á útflutningsskrifstofunni, sem var forveri Útflutningsmiðstöðvar Íslands og Útflutningsráðs. Orri var hjá félaginu í fjögur ár eða þar til honum var boðið að taka að sér rekstur fyrirtækisins Glit hf, þar sem hann starfaði í um fimmtán ár.  Glit framleiddi keramik og leirvörur, sem eftirsóttar voru af erlendum ferðamönnum jafnt sem Íslendingum. Oftar en ekki var íslenskt hraun notað í þessar vörur.

Á níunda áratugnum og kannski sérstaklega seinni hluta hans var gríðarlega mikið um að vera í kringum Orra. Fjölskylda hans var orðin einn stærsti hluthafinn í Verslunarbankanum sáluga. Orri, bróðir hans og faðir áttu hluti í bankanum og svo fór að Orri var kjörinn í bankaráðið, þar sem hann átti sæti í nokkur ár. Á svipuðum tíma hefur hann framleiðslu á ICY vodka ásamt Ólafi Sigurðssyni, fyrrverandi fréttamanni hjá Sjónvarpinu.

Ástríðufullur veiðimaður

Þrátt fyrr allt það sem Orri gerði um ævina er hann þekktastur fyrir baráttu sína gegn veiðum á laxi í sjó. Árið 1989 stofnaði hann Verndarsjóðinn.

„Ég byrjaði á þessu af því að ég er ástríðufullur veiðimaður,“ sagði Orri. „Norður-Atlantshafslaxinn hefur átt undir högg að sækja og mér er umhugað um að hann fái að vaxa og dafna. Það er nú bara svo einfalt.“

Orri ferðaðist út um allan heim í baráttu sinni til verndar laxinum og hlaut fjölmargar viðurkenninga fyrir starf sitt. Tímaritið Time valdi hann eina af hetjum Evrópu árið 2004 (Time Magazine European Hero) og þremur árum seinna hlaut hann umhverfisverðlaun Goldman (Goldman Environmental Prize). Þá hlaut hann einnig hina íslensku fálkaorðu og riddaraorðuna frá bæði  dönsku drottningunni og frönskum stjórnvöldum. Í fyrra var hann tekinn inn í frægðarhöll Alþjóðasamtaka sportfiskveiðimanna (e. International Game Fish Associaton - IGFA).  Hér hafa aðeins nokkrar viðurkenningar af mörgum verið nefndar.

„Það má eiginlega segja að ég hafi þokað mér hægt og hægt út í þetta,“ sagði Orri. „Þetta snýst um að gera viðskiptaverndarsamninga um að kaupa réttindi í Atlantshafinu þannig að menn hætti að veiða lax í sjó. Við höfum stofnað dóttursjóði víða um lönd sem við borgum í. Þessir sjóðir eru notaðir til þess að aðstoða þá sjómenn sem áður veiddu lax við að gera eitthvað annað.“

Sex milljarðar

Í viðtalinu í apríl 2014 sagði Orri að Verndarsjóðurinn og dóttursjóðir hans hefðu safnað um sex milljörðum króna. Allt það fé hefði farið í að kaupa upp net og borga sjómönnum fyrir að veiða ekki lax í sjó. Stórum hluta fjárins væri safnað á fjáröflunarsamkomum, sem haldnar væru víða um heim en einnig væru árlega gefnar út bækur, þar sem söluandvirðið rynni til sjóðsins og svo mætti áfram telja. Þá sagði hann að ýmis þjóðríki hefðu lagt peninga í sjóðinn, eins og til dæmis Frakkland, Bandaríkin og Spánn.

Verndarsjóðurinn hefur beitt sér víða en þó helst í Færeyjum, Grænlandi, Írlandi, Norður-Írlandi, Skotlandi, Englandi, Wales, Frakklandi og Noregi.

Laxá í Aðaldal

Samhliða starfi sínu sem formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna var Orri á kafi í laxveiðinni hér heima. Hann var formaður Laxárfélagsins, sem er með stóran hluta Laxár í Aðaldal á leigu, þá var hann lengi formaður Strengs, sem er með Selá og Hofsá á leigu og hafði umsjón með veiði í Fljótaá. Laxá í Aðaldal skipaði alveg sérstakan sess í huga Orri enda stundaði hann veiðar þar í ríflega hálfa öld.

„Stóra ástin í mínu í lífi er Laxá í Aðaldal. Það er engin á í heiminum sem jafnast á við hana og er ég búinn að fara víða. Þrátt fyrir að ég sé að sinna þessum fjórum ám hér heima þá er vinnan fyrir Verndarsjóðinn mitt aðalstarf en ég fæ engin laun fyrir hana. Þetta er sjálfboðavinna. Þegar ég fékk viðurkenninguna frá Goldman þá fékk ég líka 15 eða 20 milljónir í peningaverðlaun en sú fjárhæð rann öll til laxaverndar í Noregi.“

Hélt að þetta tæki tvö ár

Þó Orri hafi lengst af barist gegn veiði á villtum laxi í sjó barðist hann einnig gegn sjókvíaeldi á laxi.

„Við höfum ekkert á móti laxeldi en það bara má ekki vera í sjó heldur verður það að vera í kerjum uppi á landi, " sagði hann í viðtalinu fyrir þremur árum.

Orri sagði að þegar hann hefði byrjað verndarstarfið hefði hann hugsað með sér að að tæki svona tvö ár en síðan eru liðnir um þrír áratugir.  Í apríl 2014 sagðist hann vera kominn á þá skoðun að þetta væri eilífðarverkefni.

„Ég var kannski svo barnalegur að halda að allir myndu sjá þetta eins og ég,“ sagði Orri. „En því miður er ásókn manna í að græða peninga svo mikil að það skiptir þá engu máli þótt það bitni á náttúrunni.“

Orri læt­ur eft­ir sig eig­in­konu, Unni Krist­ins­dótt­ur, og tvö upp­kom­in börn. Viðskiptablaðið vottar aðstandendum samúð.

Greinin birtist í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Orri Vigfússon  • lax