*

Hitt og þetta 1. febrúar 2013

Helgarplön handa ólíkum týpum

Hvað á að gera um helgina? Það sem einum finnst skemmtilegt finnst öðrum kannski alveg glatað.

Lára Björg Björnsdóttir

Hvað skal borða? Hvert skal halda? Hvern skal heimsækja? Hvað skal gera? Ekki örvænta. Viðskiptablaðið tók sig saman í andlitinu og bjó til uppskrift að sérsniðinni helgi handa nokkrum algengum íslenskum týpum.

 

Ertu hippi? Þá vaknar þú við sólarupprás við ilmandi reykelsi. Það er kalt úti svo þú skalt vefja þér inn í tíbeska geitarullarponsjóið þitt og halda af stað út í daginn, hjólandi auðvitað. Fyrsta stopp er Maður lifandi þar sem þú færð þér rjúkandi heita súpu og nokkra grasköggla. Þessu er skolað niður með engifer/hveitigrassskotum sem þú drekkur úr kókóshnetuskurni á hvolfi í jógastellingu. Mosfellsbær er næsta stopp því þar er náttúra. Þangað er þó langt að fara (þið hipparnir búið allir í 101) svo næsta vers að taka strætó. Mundu samt að binda trefilinn fyrir augun á meðan þú keyrir framhjá neyslusyndapyttinum, Kringlunni og halda fast utan um orkusteininn.  

 

Hægri manneskjan: Þú hrekkur upp við gjallarhornið frá Valhöll, stekkur framúr og færð þér tvöfaldan macchiato úr fínu nespressovélinni sem þú fékkst í brúðargjöf úr Eirvík. Þú nærð í Moggann í póstlúgunni, kíkir síðan á ÍNN (endursýning á þætti Björns Bjarnasonar þegar Davíð kom í heimsókn) og rennir yfir AMX. Þú hringir í foreldra og aldraðar ömmur og afa áður en þú hendist út Laugar í spinning, enda berðu virðingu fyrir gömlu fólki. Eftir Laugar væri ekki úr vegi að hitta gamla bekkjarfélaga úr Verzló á Holtinu og fá sér eitthvað þriggja rétta stuð. Þú elskar Holtið, enda alvöru menning þar og eina almennilega koníaksstofan í bænum. Fyrir svefninn gætir þú legið og ímyndað þér hvernig höggmynd af sjálfum þér mundi líta út. Ef þú getur ekki sofnað væri notalegt að setjast við arininn með sérrítár í glasi og horfa á uppstoppaða minkinn á meðan þú lest ljóð frá 19. öld. Ef þú vilt viðra þig er göngutúr í kringum tjörnina huggulegur kostur, með Davíð Oddson (við Reykjavíkurtjörn) í ipodinum.

 

Ef þú ert flippaða týpan gætir þú byrjað daginn í Ráðhúsinu í von um að hitta á Jón Gnarr í morgunkaffi. Þú gengur um með gulan trefil því þú vilt skera þig úr. Þú ert meðvitaður um eigið flipp en um leið veistu alveg að ef þú mundir kíkja upp í Listaháskólann myndirðu finna fjöldaframleiðslu af sjálfum þér, þar yrðu allir líka með stór gleraugu, háan snúð, þverslaufu og í mynstruðum sokkabuxum úr Kron kron. En það er allt í lagi. Því það er pláss fyrir allskonar auðvitað. Líka eftirhermur. Þér leiðast samt týpískir veitingastaðir svo þú tekur með þér heimasmurt nesti og sest á Arnarhól á áberandi stað í von um að rekast á erlenda tískubloggara sem vilja mynda þig því þú ert svo öðruvísi. Í lok dags gætir þú hent í einn gjörning, kannski væri skemmtilegt að líma strokleður saman og hengja um hálsinn á meðan þú semur nútímadans fyrir næsta kaffiboð hjá Feneyjartvíæringsvinafélaginu.

 

 Ef þú ert foreldri skaltu fara með börnin til foreldra þinna, keyra aftur heim og fara að sofa.

 

 Ef þú ert útivistartýpan skaltu stilla klukkuna á sjö og fara þá beint á Facebook, henda inn myndum af göngustafnum, ilmandi kaffibolla og 66 gráður norður úlpunni og setja status: „Esjan bíður, best að drífa sig áður en allt venjulega fólkið mætir og teppir stíginn!“ Ekki gleyma að taka myndir á leiðinni upp á topp og pósta á facebook. Útivist er ekki nógu skemmtileg ein og sér svo hlutir eins og facebook gera rosa mikið fyrir þig auðvitað. Þar getur þú leyft fólki að sjá hvað þú ert dugleg/ur og minnt aðra um leið á hvað þeir eru latir. Síðar um daginn mætir þú beint í kaffiboð, ennþá í göngudressinu, og gerir teygjur inni í stofu fyrir framan ættingjana á meðan þú lætur fólk rétta upp hönd sem eru þunnt.