
Tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson hefur frestað því að opna nýjan veitingastað á Hótel Borg vegna takmarkana sem eru á veitingarekstri í heimsfaraldrinum að því kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Helgi stefnir á að opna með Guðfinni Karlssyni veitingamanni sem löngum hefur verið kenndur við Prikið og átti um tíma hlut í veitingastað Jamie Oliver á Hótel Borg en seldi sig út úr rekstrinum.
Helgi segir við Morgunblaðið að engin glóra sé í að opna að svo stöddu þegar jafn miklar takmarkanir séu á gestafjölda og raun ber vitni vegna sóttvarna.
Í viðtali við Fréttablaðið á síðasta ári sagði Helgi að hann vildi koma gyllta salnum á Hótel Borg aftur í notkun. „Það er algjör synd að einn fallegasti salur Reykjavíkur hafi bara verið settur undir pítsuofn. Mér hugnast það engan veginn,“ sagði Helgi.
Á sínum tíma hannaði og stofnaði Helgi veitingastaðinn Astró auk þess að hafa verið í veitingarekstri í Berlín. Þá sagðist Helgi vera hrifinn af ítölskum mat en ekki væri búið að ákveða hvaða þema væri á veitingastaðnum.