*

Ferðalög 28. júní 2013

Helmingur landsmanna ætlar að ferðast innanlands í sumar

Um 28% landsmanna ætlar til útlanda í sumarfríinu en um 10% ætla ekki að ferðast neitt skv. könnun MMR.

Rúmlega helmingur Íslendinga ætlar að ferðast innanlands í sumar og um 28% landsmanna ætlar að ferðast bæði innanlands og utanlands.

Þetta kemur fram í könnun MMR þar sem spurt var hvort að Íslendingar ætluðu að ferðast innanlands eða utan í sumarfríinu. Litlar breytingar reyndust á ferðaætlunum Íslendinga frá því árið áður. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar sögðust 54,7% eingöngu ætla að ferðast á Íslandi í sumarfríinu nú borið saman við 52,8% í júní 2012.

Þá sögðust 28,1% ætla að ferðast bæði innan- og utanlands í sumarfríinu borið saman við 27,3% í júní 2012, 7,1% sögðust eingöngu ætla að ferðast utanlands borið saman við 7,1% í júní 2012 og 10,1% sögðust ekki ætla að ferðast neitt í sumarfríinu borið saman við 11,9% í júní 2012.