*

Veiði 19. febrúar 2017

Helmingurinn þyngri en 8 pund

Gjöfulasti veiðistaður á svæði Laxárfélagsins í Laxá í Aðaldal var Spegilflúð og stærsti lax sumarsins veiddist á Breiðeyri.

Trausti Hafliðason

Laxárfélagið, sem er með stóran hluta Laxár í Aðaldal á leigu, gefur árlega út veglega skýrslu um veiði á sínu svæði. Skýrslan fyrir veiðina síðasta sumar kom út í vikunni.

Veitt er á átta stangir á svæðinu sem teygir sig frá ósum árinnar fyrir neðan Æðarfossa upp að veiðisvæðum Núpa og Kjalar. Einnig er félagið með svæði ofar í ánni við Hjarðarhaga, Jarlsstaði og Haga I. Um hundrað félagsmenn eru í Laxárfélaginu og veiðihús félagsins er Vökuholt við Laxamýri. Þess má geta að í Laxá allri eru veitt á 18 stangir.

Fyrir utan þær 8 stangir, sem Laxárfélagið er með á sínum snærum, eru 8 til 10 á Nessvæðinu og ein í Árbót. Í heildina veiddust 1.207 laxar í Laxá í Aðaldal síðasta sumar, sem er þriðja besta veiðin í ánni frá aldamótum og örlítið betri veiði en var í ánni árið 2015 þegar það veiddist 1.201 lax.

Veiðin í Aðaldal verður því að teljast mjög góð og þá sérstaklega hvernig hún hélt sér á milli ára því yfir landið allt veiddust um 18 þúsund færri laxar árið 2016 en 2015. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hafrannsóknarstofnunar veiddust 53.600 laxar síðasta sumar samanborið við 71.700 árið 2015. Meðaltal áranna 2000 til 2015 er 51.400 laxar.

Í skýrslu Laxárfélagsins kemur fram að í fyrra veiddust 535 laxar á svæði félagsins. Ríflega helmingur laxanna, eða 52%, var þyngri en 8 pund. Sérstaða Laxár er einmitt hátt hlutfall stórlaxa. Veiðimenn sækja fyrst og síðast í Aðaldalinn til að ná þeim stóra en ekki til að veiða marga laxa.

Hjá Laxárfélaginu er veitt á fimm svæðum, veiðisvæði 1 til 4 og síðan veiðisvæði 8. Það svæði sem gaf flesta laxa í fyrra var veiðisvæði 3 en þar er meðal annars hinn magnaði stórlaxastaður Spegilflúð. Það var einmitt sá veiðistaður sem gaf flesta laxa eða 62.  Af sjö stærstu löxunum sem landað var á svæðum Laxárfélagsins í fyrra veiddust fjórir á Spegilflúð. Veiðisvæði 1, sem er við Æðarfossa, gaf næstflesta laxa eða 162.

Þrír risalaxar

Tveir af þremur stærstu löxunum, sem veiddust á Laxárfélagssvæðinu, voru dregnir á land á Breiðeyri, sem er á veiðisvæði 4. Stærsta laxinn veiddi rússneski veiðimaðurinn Stanislav Danelyan þann 25 ágúst. Það var hængur, sem mældist 112 sentímetra langur og tók fluguna Hairy Mary Gray. Þremur dögum síðar veiddi Áslaug Árnadóttir 110 sentímetra hæng á sama veiðistað á Snældu og daginn eftir að Áslaug hafði veitt sinn stórlax kom annar 110 sentímetra lax á land á Spegilflúð. Sá lax tók fluguna Wolfowitz. Laxinn sem Rússinn dró á land var ekki bara stærsti laxinn á Laxárfélagssvæðinu heldur sá stærsti sem veiddist á öllu landinu síðasta sumar.

„Laxagengd í Laxá og reyndar á öllu landinu fór óvenju snemma af stað og var komið talsvert af laxi strax í byrjun júní," segir í pistli, sem Orri Vigfússon, formaður Laxárfélagsins, skrifar í skýrslu Laxárfélagsins. „Smálaxagöngur sumarsins voru með minna móti og því dró víða úr veiðinni þegar líða tók á sumarið. Þetta var í samræmi við spakmannaspár, sem vísuðu til þess hve vorið 2015 var kalt og erfitt fyrir gönguseiði sem komust færri til sjávar og þá við illan leik að talið er. Vorið 2016 var hins vegar afar gott og leyfum við okkur að vera bjartsýn um góðar smálaxagöngur sumarið 2017."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Laxveiði  • Orri Vigfússon  • lax  • Laxá í Aðaldal