*

Bílar 4. apríl 2017

Heppinn að sleppa lifandi

Stefán Magnússon, framkvæmdastjóri Hard Rock Café Reykjavík, hefur í mörg horn að líta á veitingastaðnum sem var opnaður sl. haust í Lækjargötu.

Róbert Róbertsson

Nú um þessar mundir er Stefán að undirbúa stóra hljómsveitakeppni sem Hard Rock veitingakeðjan stendur fyrir sem ber heitið Battle of the Bands en hún fer fram á meira en 125 Hard Rock veitingastöðum um allan heim. Íslenska keppnin verður haldin á Hard Rock Café Reykjavík í Lækjargötu og fer fram þann 18. maí nk. Við fengum Stefán til að segja okkur frá ýmsu því eftirminnilegasta sem hann hefur upplifað varðandi bíla.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Það er Subaro Outback bíllinn minn 2006 árgerð. Ég er nýbúinn að selja hann en þetta er besti bíll í heimi í mínum huga. Hann bilaði aldrei, festist aldrei í snjó, hann steinlá á veginum eins og kjötbolla og virkaði alltaf 100%. Ég keyrði þennan bíl 150.000 þúsund km og það eru forréttindi að eiga svona bíl sem kemur manni alltaf frá A til B. Þetta er ekki fallegasti bíll í heimi en þegar hann virkar svona vel og í svona mörg ár þá einfaldlega fer manni að þykja vænt um hann. Ég á alltaf eftir að fá mér aftur Subaru Outback því þetta er bíll sem hentar gríðarlega vel í keyrslu hér á Íslandi.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Það er klárlega leigubílaferð á Spáni árið 1996. Þarna var ég tvítugur í útskriftarferð og eina nóttina eftir diskóið þá var ákveðið að heimsækja Benidorm. Sem var ágæt hugmynd nema við vorum á Costa Del Sol og 700 km til Bene. En á þessum tímapunkti þá fannst okkur strákunum þetta alveg frábær hugmynd og við veifuðum þarna leigubíl og báðum hann um að keyra okkur á Benidorm. Hann horfði á okkur eins við værum fávitar og spurði nokkrum sinnum hvort við værum að meina þetta. Eftir langt og gott spjall þá var hann til í þetta fyrir 55.000 peseta sem var kostnaður upp á 21.500 kr. íslenskar. Við eðlilega sváfum vært alla leið og þegar við komum þangað þá hittum við vini okkar sem voru þar í útskriftarferð og köstuðum á þá kveðju. Við fengum okkur pitsu og ákváðum svo að þetta væri orðið gott og núna væri sniðugt að skella sér til baka eftir þennan rúma klukkutíma þarna á Benidorm. Við fundum okkur leigubíl sem var til í að skutla okkur til baka nema hann keyrði allt aðra leið með okkur en bílstjórinn um nóttina. Við fórum sem sagt strandlengjuna til baka en ekki þjóðveginn sem var beinn og breiður.

Strandlengjuvegurinn var ekkert nema blindhorn, blindbeygjur sem er í lagi ef þú keyrir varlega, en þessi leigubílstjóri var greinilega alveg til í að deyja þarna því hann keyrði eins og bavíani og tók fram úr á öllum stöðum og keyrði á 150 km hraða ef hann mögulega gat. Þegar hann keyrði inn í borgina Granada var U beygja sem hann ætlaði sér að taka á 100 km hraða sem eðlilega er ekki hægt og hann fattaði það í miðri beygjunni. Þá hægði hann skyndilega á sér og bíllinn hoppaði nokkrum sinnum áður en hann kláraði beygjuna. Bílstjórinn leit á okkur og sagði okkur að slaka á því hann væri svo vel dekkjaður að þetta væri ekkert mál. Hann var ekki búinn að sleppa orðunum þegar hann hafði affelgað tvö dekk í þessari hræðilegu U beygju. Þegar strandveginum lauk og hann kom sér inn á Þjóðveginn þá keyrði hann á 180 km hraða alla leið upp að hótelið og við félagarnir trúðum því ekki að við hefðum lifað þessa ferð af. Ég hef aldrei í lífinu verið eins hræddur og að sleppa lifandi úr þessari bílferð var ekkert annað en kraftaverk. Við vinirnir eðlilega fögnuðum lífinu þar sem eftir var af þessari ferð og skemmtum okkur vel en tókum ekki leigubíl aftur á Spáni.”

Hver er besti bílstjórinn?

,,Það er Haraldur Pétursson torfærumeistari úr Hveragerði. Hann er eini bílstjórinn sem ég hef virkilega haft gaman af að horfa á keyra bíl.”

Nánar er fjallað um málið í bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Hard Rock  • Stefán Magnússon  • Spáni