*

Menning & listir 13. júní 2014

Hið stóra og smáa

Í þriðja sinn sér píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson um listræna stjórnun Reykjavík MIdsummer Music.

Það sem er skemmtilegast við tónlist er þegar hún kemur manni á óvart á einhvern hátt. Þegar hún hrærir upp í fólki. Það er það sem ég er að vonast eftir með þessari hátíð – að hún hræri upp í fólki,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music sem verður haldin í Hörpu dagana 13. til 16. júní næstkomandi.

Hátíðin var haldin í fyrsta skipti árið 2012 en að sögn Víkings hafði hugmyndin orðið til mörgum árum áður. „Þegar Harpa var risin vissi ég að tíminn væri kominn, hún væri einmitt staðurinn þar sem ég gæti haldið þessa hátíð eins og ég hafði séð hana fyrir mér og leitt saman frábæra íslenska tónlistarmenn með alþjóðlegum stjörnum úr tónlistarheiminum til að skapa eitthvað fallegt saman. Síðan þróaðist hugmyndin þannig að ég byggi hátíðina hvert einasta ár í gegnum eitthvert ákveðið þema. Mér finnst gaman að reyna að ná stórum boga yfir hátíðina, finna óvænt samhengi milli verka og spinna þræði sem eru þó neðanjarðar, ekki endilega of augljósir. Það skiptir mig líka miklu að engin ein hátíð líkist þeim sem á undan hafa komið. Það er svo hvimleitt þegar tónlistarhátíðir verða fyrirsjáanlegar,“ segir Víkingur.

Fyrsta hátíðin var smá í sniðum en hún hefur vaxið ótrúlega hratt á tveimur árum að sögn Víkings. „Fyrst tók ég í raun bara frábæra músík sem hafði lítið eða aldrei verið spiluð á Íslandi og fékk einvalalið íslenskra hljóðfæraleikara til að spila hana með mér. Í fyrra vann ég svo út frá þemanu anachronismi, eða tímaskekkja. Þá var ég að taka tónlist eftir tónskáld sem að fóru að einhverju leyti ekki eftir straumum sinna tíma. Bæði menn sem voru ótrúlega framúrstefnulegir og líka menn sem voru með nostalgíu á heilanum.“

Minimal Maximal

Í ár er þemað „minimal maximal“, sem hægt væri að þýða á íslensku sem „smágert stórgert“ en hátíðin vinnur úr því þema með ólíkum hætti. „Þetta er skemmtilegasta þemað hingað til,“ segir Víkingur.

Nánar er rætt við Víking í Eftir Vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.