*

Menning & listir 3. september 2016

Hildur Bjarnadóttir á Kjarvalsstöðum

Sýningin Vistkerfi lita tekst á við þörf mannsins fyrir að tilheyra ákveðnum stað í heiminum.

Eydís Eyland

Árið 2012 eignaðist Hildur landskika í Flóahreppi. Hún hafði þá engin tengsl við svæðið en hefur verið að festa rætur og byggja upp framtíð á þessum stað. Landið er í miðju bændasamfélagi, þar er flatlent og víðsýnt til allra átta. Þar vex fjölbreyttur gróður sem algengur er á þessu landsvæði. Einkennandi eru þúfur þar sem meðal annars vex blóðberg, krossmaðra, hrútaberjalyng og þursaskegg, einnig engjar með klófífu, hálmgresi og mýrasóley, og graslendi þar sem vex ilmreyr, ásamt bugðupunti, mjaðjurt, blávingli og hálíngresi

Sýningin Vistkerfi lita hefur þennan stað sem megin viðfangsefni. Fyrir Hildi er landspildan vettvangur til að velta fyrir sér viðfangsefnum í tengslum við það að eiga sér rætur á tilteknum stað og ennfremur þeirri vistfræðilegu röskun sem umgengni mannsins við náttúruna getur valdið. Í gegnum landið staðsetur hún sig í tíma og rúmi, persónulega, pólitískt og listrænt.

Hildur Bjarnadóttir býr og starfar í Reykjavík og í Flóahreppi. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA próf frá nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Hildur stundardoktorsnám í myndlist við Listaháskólann í Bergen.

Sýningin opnar í dag á Kjarvalsstöðum kl. 16:00 og stendur til 8. janúar 2017.