*

Menning & listir 5. febrúar 2020

Hildur þykir langlíklegust

Veðbankar telja nær óumflýanlegt að Hildur Guðnadóttir verði fyrsti Íslendingurinn til þess að hljóta Óskarsverðlaun.

Ástgeir Ólafsson

Veðbankar telja miklar líkur á því að tónskáldið Hildur Guðnadóttir muni hljóta Óskarsverðlaun næstkomandi sunnudagskvöld fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker en á hjá veðbankanum bet365 er stuðullinn 1,12 á að hún hljóti virtustu verðlaun kvikmyndaiðnaðarins. 

Hildur er tilnefnd til verðlaunanna fyrir bestu frumsömdu kvikmyndatónlistina. Sá sem er talinn næst líklegastur til að hreppa hnossið er Thomas Newman fyrir tónlistina í 1917 en stuðullinn á hann er töluvert hærri eða 5,5. Þar á eftir kemur svo Alexandre Desplat fyrir Little Woman með stuðulinn 15, Randy Newman fyrir Marriage Story með stuðulinn 34 en þess má geta að Randy er náskyldur frændi Thomas Newman. John Williams rekur svo lestina með stuðullinn 51 en hann samdi tónlistina við Star Wars myndina The Rise of Skywalker.

Á vefsíðunni Oddschecker sést glögglega að veðbankar eru allir á sama máli að Hildur þyki langlíklegust til sigurs og verða þar með fyrsti Íslendingurinn til að hljóta Óskarsverðlaun. Lægsti stuðullinn á hana er 1,11 en sá hæsti 1,28. Stuðull upp á 1,28 þýðir sem dæmi að ef 1.000 krónur eru lagðar undir fengjust 1.280 krónur til baka vinnist veðmálið. 

Hljóti Hildur verðlaunin myndi hún loka einhverskonar alslemmu í gerð tónlistar fyrir kvikmyndir og sjónvarp en hún hefur nú þegar hlotið Golden Globe og BAFTA verðlaun fyrir Joker auk þess sem hún hefur fengið Emmy og Grammy verðlaun fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum Chernobyl. 

1917 líklegust sem besta mynd

Þegar litið er yfir stuðla á fyrir aðra flokka á hátíðinni má sjá að kvikmyndin 1917 er talin líklegust sem besta myndin með stuðulinn 1,33 en þar á eftir kemur Parasite með stuðulinn 5 og Once Upon a Time in Hollywood með 8. Þá þykir Sam Mendes leikstjóri 1917 líklegastur sem besti leikstjóri með stuðulinn 1,1 en þar á eftir koma Bong Joog Ho fyrir Parasite með stuðulinn 6,5 og Quentin Tarantino fyrir Once Upon a Time in Hollywood með 17. 

Joaquin Phoenix þykir nær öruggur með verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki en stuðullinn á að hann hljóti verðlaunin fyrir að hafa farið á kostum í túlkun sinni á Jókernum í samnefndri mynd er einungis 1,02. Þar á eftir kemur svo Adam Driver fyrir Marriage Story með stuðulinn 11 og Leonardo DiCaprio fyrir Once Upon a Time in Hollywood með stuðulinn 26.

Rene Zellweger þykir einnig nær örugg um verðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki fyrir kvikmyndina Judy en stuðullinn á að hún hljóti verðlaunin er 1,03. Þar á eftir koma svo þær Scarlett Johansson fyrir Marriage Story með stuðulinn 12 og Cynthia Erivo fyrir Harriet með stuðulinn 26. 

Fyrir verðlaun sem besti leikari í aukahlutverki þykir Brad Pitt nær öruggur fyrir Once Upon a Time in Hollywood með stuðulinn 1,02 en þar á eftir koma reynsluboltarnir Joe Pesci og Al Pacino fyrir The Irishman með stuðulinn 12 og 26. 

Laura Dern þykir líklegust sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir Marriage Story en stuðullinn á hana er 1,04 en þar á eftir koma Margot Robbie fyrir Bombshell og Florence Pugh fyrir Little Woman með stuðulinn 11 og 17 samkvæmt bet365.