*

Matur og vín 3. október 2016

Hinn fullkomni veiðidrykkur

Fannar Guðmundsson, Haraldur Gísli Sigfússon og Óskar Ericsson framleiða íslenska ginið Himbrima.

Þríeykið Fannar Guðmundsson, Haraldur Gísli Sigfússon og Óskar Ericsson framleiða íslenskt gin sem nýlega var kynnt á markað. Þeir leiddust saman út í verkefnið vegna sameiginlegs áhuga á gini. Eftir vinnu hitti þá félaga til að forvitnast meira um ginið og hugmyndina á bak við það.

Fannar er verkfræðingur, Haraldur er fjármálahagfræðingur og Óskar er myndlistarmaður og upplifunarhönnuður. Fannar og Haraldur sjá um rekstrar- og markaðshliðina, framleiðslu og framkvæmd og Óskar hefur séð um þróun ginsins en verkefnið byrjaði sem eldhúsverkefni hjá honum. Óskar hafði það að markmiði að gera íslenskan veiðidrykk og því leitaðist hann við að fá innblástur frá öllu sem einkenndi ána og árbakkann, blóðbergi, hvönn, einiberjum og vatni.

Óskar hitti Fannar og Harald í gegnum sameiginlegan vin fyrir tæpum 6 mánuðum. „Ég var í þrjú ár að þróa þetta gin og hef leitað mjög lengi að félögum til að gera þetta með því ginið hefur fengið góð viðbrögð hjá þeim sem hafa smakkað og hef ég fengið mikla hvatningu frá fagmönnum til að framleiða þessa vöru,“ segir Óskar.

Sameiginlegur gin-áhugi

Haraldur segir að þegar hann bjó í Danmörku hafi hann kynnst því hve margar tegundir af gini væru til og fór að skilja betur út á hvað það gekk. „Það er mikill munur á milli gins því þetta er ekki eins og foreldrar okkar ólust upp við.

Gin er meira en gin & tonic, það er hægt að gera svo margt við það. Við leiðumst út í þetta saman vegna gin-áhuga. Við Fannar höfum þekkst frá því í menntaskóla og vorum byrjaðir að huga að gin-framleiðslu þegar við hittum Óskar og ákváðum að slá til þar sem við kolféllum fyrir gininu og hugmyndinni. Almennt vegur hugmyndin jafn mikið og bragðið og fannst okkur Fannari þetta gin fanga allt sem þarf fyrir hinn fullkomna veiðidrykk í flösku,“ segir Haraldur.

Er mikill kostaður við svona framleiðslu?

„Já, það fylgir þessu töluverður kostnaður og að ýmsu þarf að huga. Það eru ákveðin leyfi og ferlar sem þarf að huga að og svo eru hendur okkar bundnar varðandi markaðssetningu. Okkur fannst alveg vera kominn tími á að koma með gæðagin á markaðinn. Eitthvað sem er handgert og mikill metnaður er settur í drykkinn sjálfan og líka í upplifunina við að drekka hann,“ segir Fannar. Óskar segir að ginið dragi nafn sitt, Himbrimi, af samnefndum fugli sem á sér aðeins varpstað á Íslandi og í Kanada. „Við eigum því mikið í þessum fugli. Hljóðið í honum er mjög öflugt og þekkja allir veiðimenn þetta hljóð. Himbrimi gerir sér varpstaði á lækjum og ám þar sem silungurinn er.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Eftir Vinnu sem áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: drykkur  • Himbrimi  • gin