*

Bílar 12. nóvember 2018

Hinn óræði „premium“-flokkur

Léttur samanburður á Hyundai Santa Fe Premium og VW Touareg Elegance sem báðir nálgast lúxusflokkinn.

Guðjón Guðmundsson

Hvað gerist næstum óhjákvæmilega þegar ný kynslóð bíls er sköpuð? Bíllinn lengist, tæknibúnaður eykst, oftast er hann léttari, eyðslan fer niður og akstursgæðin aukast. Allt á þetta við um fjórðu kynslóð Hyundai Santa Fe sem kom á markað fyrr á þessu ári og líka þriðju kynslóð VW Touareg sem einnig var kynnt á þessu ári. Í Premium útfærslu Santa Fe, sem var prófuð, eru líka skilin milli jeppaflokks og lúxusjeppaflokks farin að verða nokkuð óskýr ef mið er tekið af smíðagæðum, efnisvali og tæknibúnaði.

Hyundai hefur þó ekki verið tengdur við lúxusbíla sem framleiðandi en það hefur svo sem Volkswagen ekki heldur verið. Frá þeim kom þriðja kynslóð Touareg á þessu ári sem byggður er á sama undirvagni og tvö önnur merki risasamsteypunnar, þ.e. Porsche Cayenne og Audi Q7. Þar á hið sama við; léttari, lengri, eyðslugrennri og mörkin milli jeppaflokks og lúxusjeppaflokks ansi óræð.

En stóri munurinn milli kóreska Hyundai Santa Fe og VW Touareg liggja sennilega í nákvæmari og sportlegri aksturseiginleikum þess síðarnefnda og verðmiðanum sem er Santa Fe óneitanlega í vil. En Touareg er að sjálfsögðu talsvert stærri bíll en Santa Fe og munar þar 23 cm á lengdina. Eðilegri samanburður væri því hugsanlega Audi Q7 eða Porsche Cayenne en vandamálið er að þeir síðastnefndu teljast ótvírætt til lúxusjeppa en hvorki VW Touareg né Hyundai Santa Fe.

Allt til alls

Farið var á hlöðnum Santa Fe austur í sveitir, þrír fullorðnir og tvö börn, til helgardvalar. Þessu fylgir mikill farangur sem auðvelt var að koma fyrir í stóru farangursrýminu sem er eiginlega tvískipt því undir gólfinu er umtalsvert geymslupláss fyrir minni hluti. Í aftursætum fór vel um þrjá farþega. Bíllinn er enda um 8 cm lengri en í fyrri gerð.

Þegar sest er inn í Santa Fe Premium upplifir maður nákvæmlega þessa tilfinningu; „premium“. Stjórnrýmið er nútímalegt með stórum 8 tommu upplýsingaskjá fyrir miðju með öllum helstu stýringum. Leður er á sætum og efnisval mjög í takt við aðra framleiðendur sem kenna sig við „premium“ flokkinn. 19 tommu álfelgur og stór sóllúga er staðalbúnaður og listinn yfir annan búnað er langur og má skoða hér á síðunni.

Túrbínuhik

Dísilvélin er lágvær og skilar 200 hestöflum í gegnum átta þrepa sjálfskiptingu. Það er því af nægu afli að taka en eins og oft virðist einkenna túrbóvæddar fjögurra strokka vélar gætir talsvert hiks, bæði í upptöku og þegar þörf er á snöggri aflaukningu, t.d. við framúrakstur. Bíllinn er hljóðlátur og fer vel með ökumann og farþega á hvaða undirlagi sem er.

Premium útfærslan er stútfull af nýjustu tækni. Löngum stundum í þjóðvegaakstri sá hann alfarið sjálfur um að stýra sér þar sem veglínur voru greinilegar, eða allt þar til búnaðurinn skynjaði að ökumaður var ekkert sérstaklega að láta til sín taka við stýrið og hvatti hann þá til þess.

Þá er Premium með hraðastilli með fjarlægðarstýringu að næsta bíl á undan sem er hrein snilld og mikið framfaraskref í öryggi. Búnað af þessu tagi er helst að finna í dýrari merkjum og vissulega er hann ekki staðalbúnaður með minna búnum gerðum Santa Fe. Staðalbúnaður er jafnframt 50:50 driflæsing sem nýtist þegar snjóskaflarnir verða farartálmar.

Einn sá sportlegasti

Talandi um lágværar dísilvélar. Þrátt fyrir dísilvélasvindl VW um árið, sem reyndar fleiri framleiðendur eru bendlaðir við eins og BMW, Opel, Ford, Fiat Chrysler, Benz, verður ekki af VW verksmiðjunum skafið að þær kunna að smíða dísilvélar. Vélin í Touareg er allt í senn aflmikil, hljóðlát, togmikil og sparneytin.

Vélin fer í 285 hestöfl úr 262 í fyrri gerð en bíllinn er auk þess í boði með sömu vél með 230 hestafla aflúttaki og 700.000 kr. lægri verðmiða fyrir Elegance útfærsluna. Auk þess er bíllinn umtalsvert léttari þótt hann sé 5 cm lengri en í fyrri gerð. Hann er líka lægri með stærra hjólhafi og tekur minni vind á sig.

Allt gerir Touareg að einum sportlegasta borgarjeppanum sem völ er á sé litið framhjá „lúxusmerkjunum“ Porsche, Audi, BMW og Mercedes-Benz. Og aftur komum við að þessum óræðu mörkum milli hefðbundins jeppaflokks og lúxusjeppaflokks.

Touareg gefur þá tilfinningu að þar fari gæðabíll. Ekkert er sparað í efnisnotkun. Innanrýmishönnunin er algjörlega í takt við merkið og einkennist af dálítilli naumhyggju. Það er engu ofaukið og engir sérstakir stælar í útlitshönnuninni.

Tveir góðir kostir en misdýrir

Touareg og Santa Fe eru tveir góðir kostir fyrir þá sem eru í þeim hugleiðingum að fjárfesta í vel búnum gæðabílum sem banka fast á dyr „premium“ flokksins. Touareg hefur vinninginn fyrir þann sem leggur mest upp úr akstursgæðum, afli og meiri naumhyggju í innanrýminu.

Santa Fe hefur klárlega vinninginn þegar kemur að verði og jafnvel staðalbúnaði. Nær er að bera verð á Santa Fe Premium saman við verð á aflminni, 230 hestafla Elegance gerð Touareg, sem er 10.790.000 kr. Þannig verður munurinn 1.800.000 milljónir kr. en sem fyrr greinir er Touareg stærri bíll og ennþá talsvert aflmeiri en Santa Fe Premium í þeirri útfærslu.

En svo spila auðvitað aðrir þættir inn í valið eins og vörumerkjaímynd og þar stendur sennilega VW betur að vígi þrátt fyrir að Hyundai hafi verið að koma sérlega vel út úr alþjóðlegum gæðakönnunum á undanförnum árum. En þá er líka gott að hafa í huga að Skoda þótti ekki merkilegur bíll í gamla daga en skipar sér í dag í flokk með betur smíðuðum bílum.

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.