*

Menning & listir 29. maí 2013

Hjalti hlýtur sænsk hönnunarverðlaun

Hönnuðurinn Hjalti Karlsson fær í nóvember afhent verðlaun Torsten och Wanja Söderberg.

Hjalti Karlsson hlaut í ár sænsku hönnunarverðlaun Torsten och Wanja Söderberg. Hjalti rekur hönnunarfyrirtækið Karlssonwilker í New York í Bandaríkjunum. Þetta eru ein virtustu hönnunarverðlaun í heimi og veitt þeim sem þykir skara fram úr á sínu sviði. Verðlaunaféð nemur einni milljón sænskra króna, jafnvirði tæpra 19 milljóna íslenskra, og verða verðlaunin afhent í Gautaborg í nóvember. 

Fjallað er um Hjalta á vef Röhsska-safnsins í Svíþjóð.

Þar segir m.a. að verðlaunin hafi verið veitt á hverju ári síðan árið 1994. Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður hlaut verðlaunin fyrir fimm árum en markmið þeirra er að vekja athygli á hönnuðum og handverki á Norðurlöndunum. Efnt verður til sýninga á verkum þess sem hlýtur verðlaunin og er stefnt að því að sýna verk Hjalta þar.