*

Viðtal, Menning & listir 29. september 2016

Hjartað mitt er á Íslandi

Edduverðlaunahafinn Hera Hilmarsdóttir leikur eitt af aðalhlutverkum í nýjustu mynd Baltasar Kormáks sem nefnist Eiðurinn.

Eydís Eyland

Hera Hilmarsdóttir er með mörg járn í eldinum og nokkrar kvikmyndir hennar verða frumsýndar á næsta ári, þar á meðal myndin An Ordinary Man þar sem hún fer með aðalhlutverkið á móti stórleikaranum Ben Kingsley.

Hera er leikkona sem land og þjóð ætti að vera vel kunnugt um. Hún sýndi framúrskarandi leik í Vonarstræti í hittifyrra sem hún vann Edduverð­ launin fyrir og nú er hún mætt aftur til leiks og sannar sig enn frekar í nýjustu mynd Baltasars Kormáks, Eiðinum. Hera þeysist út um allan heim þar sem hún leikur í kvikmyndum og þáttum. Hera er alls ekki ný á sviði leiklistar því hún hefur leikið í bíómyndum frá 16 ára aldri. Eftir vinnu hitti Heru eftir frumsýninguna á Eiðnum yfir dásamlegum hádegisverði á Apótekinu til að forvitnast meira um líf hennar og starf.

Leiðist þú út í leiklist vegna foreldra þinna? „Ég held að það hafi spilað stóran þátt í leiklistaráhuga mínum. Ég vildi svo sem ekki verða mamma þó hún sé mikil fyrirmynd. Ég var náttúrulega alltaf með foreldrum mínum í vinnunni, ólst upp í þessu umhverfi og þá er frekar eðlilegt að ég leiðist út í þetta sjálf. Ég fílaði það sem þau voru að gera þó svo að þau hafi svo sem ekki viljað ýta mér út í listina, bæði þar sem það var einfaldlega ekki þeirra hlutverk og að þetta er alls ekki örugg vinna eða peningar en hvaða starf er það í raun? Ég hafði allavega sjálf áhuga og það kveikti í mér að fá að vera með á setti. Svo kom að því að ég varð nógu gömul og skýr í því sem ég vildi leggja fyrir mig og hélt meðvitað áfram í þá átt,“ segir Hera

Nánar er rætt við Heru í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu í dag.