*

Heilsa 9. júlí 2017

Hjólar í boð og bústaði

Erla Sigurlaug Sigurðardóttir, landsliðskona í hjólreiðum, hefur náð einstökum árangri í hjólreiðum af öllum toga á mjög skömmum tíma.

Kolbrún P. Helgadóttir

Nýlega náði Erla þeim árangri að hafna í öðru sæti í götuhjólreiðum kvenna á Smáþjóðaleikunum í San Maríno, fyrst Íslendinga til að komast á þann pall.

Hvenær byrjaði þú fyrst að hjóla og hvað kom til?
Ég var að æfa crossfit með Crossfit XY þar sem æfingafélagar mínir ákváðu að taka þátt í WOW Cyclothoninu árið 2014. Mér fannst þeir alveg ruglaðir að nenna því enda var ég bara á kafi í crossfit-inu og hafði aldrei hjólað – og þau í rauninni ekki heldur. Svo vildi þannig til að einn úr liðinu rifbeinsbrotnaði og mér var kippt inn í liðið með nokkurra daga fyrirvara. Ég var alls ekki spennt fyrir þessu til að byrja með, en fékk lánaðan „racer“ hjá vini mínum og fór jómfrúarferðina mína til Nesjavalla með bilaðan framskipti og kunni ekki á gírana eða annað. En það gekk vonum framar og ég fann að þetta var alls ekki svo leiðinlegt. Í WOW-inu má eiginlega segja að ég hafi frelsast alveg og naut ég hverrar mínútu á hjólinu.

Gat ekki hreyft sig í fjóra mánuði

Var ekki aftur snúið á þessum tímapunkti? Ég hjólaði í raun ekkert rosalega eftir mótið heldur einbeitti mér áfram að crossfit-inu, þar til ég fékk allstórt og slæmt brjósklos vorið 2015. Þá þurfti ég að hætta bæði í crossfit og að hjóla í fjóra mánuði. Þetta var hrikalegur tími í minningunni, enda kann ég illa að gera ekki neitt. Ég fór svo að hjóla um leið og ég gat og mátti, í bataferlinu. Annar fóturinn á mér var dofinn vel niður í tær og ég fann hvernig hann kom betur til baka með því að hjóla. Ég styrktist öll hratt og hjólaði inni á „trainer“ allan veturinn, fór svo að keppa um sumarið 2016 og gekk mjög vel, bæði á „racer“ og fjallahjóli, en það endaði með því að ég var valin hjólreiðakona Íslands 2016, eftir marga góða sigra.

Fyrsti sigurinn kom á óvart

Hvað er það sem heillar mest við hjólreiðarnar? Strax í byrjun gekk mér mjög vel að hjóla og ég fann hvað hjólreiðarnar eru í raun skemmtilegar. Maður er líka umvafinn frábærum félagsskap og svo getur maður hjólað rosalega hratt, sem ég hef ánægju af, notið náttúrunnar og virkilega reynt á sig sem mér finnst frábært.

Hver var þinn fyrsta hjólasigur? Mín fyrsta alvöru hjólakeppni var Gullhringurinn árið 2014. Þá hjólaði ég B-keppnina eða 1 hring, um 65 km. Ég hafði fram að því mest hjólað 25 km í einu. Það var rok og rigning og erfiðar aðstæður og ég man ég fraus næstum strax í startinu. En ég kláraði keppnina og þegar ég var að ganga frá hjólinu mínu í bílinn og ég var að fara að koma mér af stað heim kom einhver upp að mér og sagði mér að ég hefði verið fyrsta konan í mark. Ég trúði viðkomandi ekki fyrr en hann sýndi mér það á tímatökunni á netinu. Það kom vægast sagt skemmtilega á óvart. En svo eftir það keppti ég í nokkrum B-keppnum um sumarið og svo ekkert aftur fyrr en sumarið eftir brjósklosið.

Hjólar í boð og sumarbústaði

Fer ekki mikill tími í svona hjólaiðkun? Það fer eftir því hvað fólk hefur gaman af þessu, maður gæti hjólað allan daginn ef maður hefði tíma til þess. Þetta tekur vissulega tíma, en í raun ekkert lengur heldur en að fara í ræktina eða út að hlaupa. Maður tekur kannski lengri túra um helgar. En að æfa eins og ég geri núna, með landsliðinu, tekur jú fullt af tíma, en þetta er bara svo gaman að maður kemur þessu vel inn í dagskrána með því að t.d. hjóla í og úr vinnu, hjóla í alls konar boð og sumarbústaði. Það er mikilvægt að nota tækifærin sem gefast í daglega lífinu og tvinna þetta inn í þegar hægt er.

Hvetur konur til að fjallahjóla og leika

Fórstu strax í fjallahjólin líka? Ég keypti mér fjallahjól fyrir peninga sem ég fékk frá nánast öllum vinum og ættingjum mínum í fertugsafmælisgjöf í fyrravor. Þá byrjaði það ævintýri. Mér finnast fjallahjólreiðarnar rosalega skemmtilegar, það er svo mikill leikur í þeim, þó að þær taki líka gríðarlega á, bæði tæknilega og þollega séð í keppni. Þú vannst nýlega eina slíka keppi, til hamingju með það! Í sjónvarpsviðtali eftir sigurinn hvattir þú konur til dáða. Hafa þær verið tregari við að prófa fjallahjólin? Það eru mjög margar konur farnar að hjóla á „racer“ og það er frábært. Hjólasumarið í sumar verður til dæmis mjög skemmtilegt með fullt af nýjum sterkum konum að keppa. En þær eru mun færri á fjallahjólum, að keppa a.m.k. Þetta er auðvitað hamagangur og læti og maður dettur og hruflar sig mjög reglulega, en já, ég vil bara hvetja fleiri konur til að fjallahjóla og leika sér þannig – og keppa ef þær hafa áhuga á því, til dæmis í B-keppnum sem mér finnst að fólk ætti meira að líta á sem viðburð heldur en beina keppni. Bara vera með, hafa gaman, hittast, njóta þess að hjóla skemmtilega braut með góðri umgjörð í „keppni“.

Er mikilvægt að æfa annað meðfram hjólreiðunum til að styrkja sig? Já, það er mikilvægt að styrkja maga og bak, í það minnsta fyrir bakveika eins og mig. Ég trassa það samt alltof mikið. Og að æfa fótastyrk á veturna er líka upplagt, en ef maður hefur lítinn tíma er samt talið best að bara hjóla. Það telur mest upp á árangurinn, að fá kílómetra í fæturna eins og við segjum.

Eigum hvorki heima á göngustígum né götum

Hefurðu lent í hættu á hjólinu? Ég hef, sjö, níu, þrettán aldrei dottið alvarlega á hjólinu, þó svo ég hafi nú alveg hrasað á fjallahjólinu í alls konar brölti, en ekki þannig að ég hafi meitt mig mikið. Það er vissulega alltaf hætta á því að detta en maður verður bara að vanda sig og reyna sitt besta og vera skynsamur um leið og maður gefur í.

Hvernig gengur íslenskum ökumönnum og hjólreiðamönnum að finna taktinn saman? Vonandi alltaf betur og betur, með meiri umræðu og aukinni vitund. En við eigum þónokkuð í land með að stígarnir okkar verði nægilega hjólavænir og sömuleiðis að það séu axlir til hliðar á götunum fyrir hjólreiðafólk að hjóla á. Við hjólreiðafólkið eigum í rauninni hvorki heima á göngustígum né götum, en við hjólum á báðum stöðum og reynum að vera kurteis og láta þetta ganga upp.