*

Matur og vín 4. mars 2017

Hjólbarðar og veitingahús

Veitingahúsið Dill er fyrsta veitingahúsið á Íslandi sem hlýtur Michelin stjörnu. Margir furða sig þó á því hvað hjólbarðar og matreiðsla eigi sameiginlegt.

Íslenska veitingahúsið Dill vakti mikla athygli þegar það hlaut fyrst íslenskra veitingahúsa eina af hinum eftirsóttu Michelin stjörnum. Mikil umræða hefur skapast um Michelin stjörnur í kjölfar þessara merku tíðinda, en sumir hafa furðað sig á því hvers vegna franskur hjólbarðaframleiðandi teljist vera virtasti veitingahúsagagnrýnandi heims.

Árið 1900 veltu bræðurnir André og Édouard Michelin því fyrir sér, hvernig hægt væri að auka eftirspurn eftir hjólbörðum. Hugmynd bræðranna var í raun sára einföld, en þeir létu prenta út 35.000 eintök af handbók sem innihélt fróðleik um bíla, verkstæði, hótel, bensínstöðvar og veitingahús. Með handbókinni vildu þeir hvetja fólk til þess að ferðast um þjóðvegina.

Fljótlega fóru Michelin-bræður að gefa út handbækur í fleiri löndum, en heimsstyrjöldin fyrri raskaði útgáfu nýrra handbóka í þónokkur ár. Árið 1920 taldi André Michelin svo tímabært að rukka fyrir handbókina, eftir að hafa séð hana klemmda undir vinnubekk á frönsku hjólbarðaverkstæði.

Árið 1920 var því gefin út ný útgáfa af handbókinni, sem þurfti að borga fyrir, var full af nýjum fróðleik og var laus við allar auglýsingar. Með tímanum jukust vinsældir handbókarinnar, en fólk virtist almennt hafa mestan áhuga á umsögnum um veitingahús. Bræðurnir tóku sig því til og réðu gagnrýnendur, sem áttu að gera úttektir á veitingahúsum fyrir handbókina. Mikið var lagt upp úr því að nöfnum gagnrýnendanna yrði haldið leyndum, en svoleiðis er það enn í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Dill  • Michelin