*

Sport & peningar 4. apríl 2018

Hjólhestaspyrnan sendi Juventus í dýfu

Hlutabréf í ítalska knattspyrnufélaginu Juventus lækkuðu um 7,9% eftir tap félagsins gegn Real Madrid.

Hlutabréf í ítalska knattspyrnufélaginu Juventus tóku dýfu eftir að liðið tapaði fyrir Real Madrid 3-0 í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Tórínó í gær. 

Eitt markanna þriggja kom úr glæsilegri hjólhestaspyrnu Portugalans Cristiano Ronaldo en fáir búast við að Juventus nái að sigra síðari viðureignina í Madríd með nægilegum mun til þess að komast áfram í undanúrslitin. Sæti í undanúrslitum tryggir liðunum sem þangað komast að minnsta kosti 7,5 milljónir evra eða sem nemur 914 milljónum króna.

Eftir leikinn lækkuðu bréf Juventus um 7,9% og er markaðsvirði þeirra því nú um 633 milljónir evra eða um 77,4 milljarðar króna. Juventus hefur lækkað 18% síðan í byrjun árs sem er mesta lækkun félags á STOXX Europe Football vísitölunni.

Juventus hefur verið í meirihlutaeigu Agnelli fjölskyldunnar í yfir 90 ár en fjölskyldan stýrir einnig bifreiðaframleiðendunum Ferrari og Fiat Chrysler. Fjölskyldan á nú um 64% í knattspyrnufélaginu