*

Heilsa 25. júlí 2013

Hlaupa í rúmlega 800 metra hæð á Hengilssvæðinu

Á laugardaginn verður hlaupið Hengill Ultra haldið í fyrsta skipti, en eins og nafnið ber með sér er hlaupið á Hengilsvæðinu.

Hengill Ultra hlaupið verður haldið í fyrsta skipti nk. laugardag 27. júlí. Hlaupið verður á Hengilssvæðinu en tvær vegalengdir verða í boði, 50 km og 81 km, og verður hlaupið í einum rykk. 66°Norður er aðalstyrktaraðili hlaupsins.

Í tilkynningu er haft eftir Pétri Inga Frantzsyni, hlaupara og forsvara hlaupsins, að þetta verði mikil þolraun fyrir keppendur, en um sé að ræða eina af fallegri hlaupaleiðum landsins. Farið er upp í rúmlega 800 metra hæð á Hengilssvæðinu.

Að sögn Péturs Inga eru 20 hlauparar nú þegar skráðir til leiks, þeir hafi allir æft vel fyrir hlaupið og að þeir hafi flestir tekið Laugaveginn sem lokaæfingu. Allir eigi að vera toppformi, enda veiti ekki af.

Stikkorð: Hlaup  • Hengill Ultra