*

Sport & peningar 6. ágúst 2012

Hlauparinn Bolt þarf ekki að hafa áhyggjur af tekjum

Bolt þénar um 20 milljónir bandaríkjadala á ári. Hann er tekjuhæstur í sinni íþróttagrein í dag og í 63 sæti á íþróttamannalistanum.

Hinn víðfrægi íþróttamaður Usain Bolt þénar svo sannarlega í hlutfalli við bæði árangur og þá umfjöllun sem hann fær. Tekjurnar eru samkvæmt Forbes um 20 milljónir dollara á ári.

Bolt er hlaupari frá Jamaíku og skaust upp á stjörnuhimininn eftir Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Fyrir leikana í Peking var íþróttamerkið Puma hans eini styrktaraðili. Þó hann hafi þá þegar verið búinn að setja eitt heimsmet var nafnið ekki sérstaklega þekkt.

Eftir leikana stóð Bolt hins vegar uppi sem sigurvegari, með þrjú heimsmet og þrenn gullverðlaun. Verðlaunin voru fyrir 100 og 200 metra hlaup auk 4x100 metra boðhlaupskeppni.

Í kjölfar leikanna fóru tekjur íþróttamannsins í hæstu hæðir og telur Forbes upphæðina vera um 20,3 milljónir bandaríkjadala fyrir síðustu tólf mánuði. Þar er helst um að ræða verðlaunafé, auglýsingatekjur og styrki frá styrktaraðilum. Bolt er nú í 63 sæti á lista yfir tekjuhæstu íþróttamenn í heimi. Tekjur hans eru um tuttugufaldar tekjur annarra þekktra hlaupara í dag.

Bolt hefur enn sem komið er staðið undir nafni á Ólympíuleikunum sem nú fara fram í London. Þar tryggði hann sér í gær gullverðlaun í 100 metra spretthlaupi karla og sló jafnframt Ólympíumetið íþróttinni.