*

Hitt og þetta 30. maí 2013

Hleypur heim til Ísafjarðar fyrir langveik börn

Óskar Jakobsson ætlar að hlaupa til Ísafjarðar í dag frá N1 á Ártúnshöfða. Tilgangurinn er að vekja athygli á stöðu langveikra barna.

 Vestfirðingurinn Óskar Jakobsson mun í dag leggja af stað hlaupandi frá Reykjavík til Ísafjarðar. Óskar ætlar að hlaupa um 45 km. á dag í 10 daga, en það samsvarar rúmu maraþoni á dag 10 daga í röð.

Markmið Óskars með hlaupinu er að vekja athygli á stöðu langveikra barna og foreldra þeirra. Verkefnið gengur undir nafninu „Hlaupið heim,” en Óskar er alinn upp á Ísafirði og ætlar því að hlaupa heim á æskuslóðir.

Kveikjan að styrktarsjóðnum „Hlaupið heim“ er ungur drengur að nafni Finnbogi Örn Rúnarsson 11 ára, en hann hefur gengið í gegn um miklar raunir á sinni stuttu ævi.

Styrktarsjóður „Hlaupið heim" mun styðja við bakið á Finnboga Erni og fjölskyldu auk þess sem Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna nýtur góðs af þessu afreki Óskars. Hægt er að fá nánari upplýsingar og fylgjast með Óskari á facebook síðunni Hlaupið heim og facebook síðu N1 en N1 styrkir verkefnið „Hlaupið heim." 

Stikkorð: N1  • Hlaupið heim  • Neistinn