*

Tíska og hönnun 25. febrúar 2013

Verstu pípulagnirnar í Hlíðunum og Norðurmýri

Hlíðarnar og Norðurmýrin eru verstar þegar kemur að gömlum lögnum að sögn pípulagningamanns.

Lára Björg Björnsdóttir

„Ætli Hlíðarnar séu ekki verstar út af mýrinni og byggðin fyrir neðan Klambratúnið, Norðurmýrin,“ segir Ragnar Kummer eigandi Vals Helgasonar stífluþjónustu ehf spurður hvar mest sé að gera hjá þegar laga þarf rör: „Þetta eru steinlagnir og mýrin færir steininn til. En auðvitað flýgur tæknin fram og það er bæði verið að moka upp og brjóta rörin upp eða fóðra rörin."

Ragnar segir að ekki sé gott að gera ekki neitt í slæmum lögnum: „Ef fólk gerir ekkert í þessu þá fer að koma vond lykt í húsin og kvikindin, klóakmaurarnir og rotturnar, fara á stjá. Rotturnar eiga heima í skólpkerfinu og þær eru alltaf að leita að skemmdum lögnum. Þær geta nagað göt á rörin finni þær skemmd rör, hreiðrað um sig í þeim og fjölgað sér. Stundum grafa þær sig of djúpt í grunninn og komast ekki tilbaka og drepast. Þá kemur vond rotnunarlykt í húsin.“

Ragnar segir að þeir séu þó ekki bara í Hlíðunum heldur líka nýju hverfunum og þar séu nokkur hverfi verri en önnur: „Við höfum verið töluvert í Norðlingaholtinu og á Vatnsendasvæðinu. Ástæðurnar eru tvær, gallaðar lagnir og léleg vinnubrögð,“ segir Ragnar.

Stikkorð: Hlíðar