*

Hitt og þetta 10. apríl 2020

Hljóðhermir færir skrifstofukliðinn heim

Þeir sem finnst þögnin við að vinna heima óbærileg geta nú fengið kliðinn af skrifstofunni beint í æð.

Júlíus Þór Halldórsson

Kórónufaraldurinn og samkomu- og útgöngubönnin sem honum hafa fylgt víðsvegar um heim hafa haft gríðarleg áhrif á heimsbyggðina. Hundrað þúsund hafa týnt lífinu, yfir ein og hálf milljón smitast, og efnahagur margra ríkja er í uppnámi, með tilheyrandi opinberum björgunaraðgerðum.

Einnig má þó finna fyrir öðrum og smávægilegri áhrifum. Fyrir þau okkar sem vinna nú að heiman, sérstaklega þau sem eiga ekki stóra fjölskyldu, kann þögnin að vera ærandi á köflum, sér í lagi ef tölvupóstur og önnur textasamskipti eru notuð í stað fjarfunda.

Þeir sem sakna kliðsins á skrifstofunni – prentarinn, kaffivélin, vatnskælirinn, fólk að spjalla í bakgrunni, sími að hringja, og jafnvel léttur borðtennisleikur milli vinnufélaga – þurfa hinsvegar ekki að örvænta lengur.

Þýska markaðsstofan Kids hefur útbúið hljóðhermi fyrir skrifstofuna, sem lætur þér líða alveg eins og þú sért kominn aftur í opna vinnurýmið og farinn að láta sífellda blaðrið í Sigga og tilraunir Gunnu til að mölva lyklaborðið sitt með berum höndum fara í taugarnar á þér.

Svo ekki sé talað um þennan sem skilur alltaf símann eftir á borðinu þegar hann bregður sér frá, sem undantekningarlaust hringir linnulaust allan tímann þar til hann snýr aftur.

Hægt er að stilla vinnufélagafjölda frá 1 og upp í 10, en auk þess er yfirlitsmynd af skrifstofunni, hvar hægt er að smella á flestallt í augsýn og heyra hljóðið í því sérstaklega.